Skemmtileg og uppörvandi athöfn

Anna Rut Sverrisdóttir, Kristinn Ágúst Friðfinnsson, Birgir Þórarinsson, Sigmundur Davíð …
Anna Rut Sverrisdóttir, Kristinn Ágúst Friðfinnsson, Birgir Þórarinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Þetta er ein sú skemmtilegasta og mest uppörvandi opinbera athöfn sem ég hef tekið þátt í,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þegar hann hafði tekið fyrstu skóflustunguna að bænahúsi í Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd, Knarrarneskirkju.

Hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson í Minna-Knarrarnesi hyggjast reisa litla bændakirkju í 19. aldar stíl í túninu, rétt við svokallað Brandsleiði sem raunar enginn veit hvað táknar. Séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson á Selfossi flutti bæn og helgaði staðinn þar sem kirkjan mun rísa. Fyrir valinu varð mikill hátíðisdagur í fjölskyldunni; Sverrir sonur þeirra var að útskrifast sem verkfræðingur og Þórarinn sem stúdent. Það barst síðan milli manna að húsbóndinn ætti stórafmæli en hann vildi ekki tala mikið um það. En veðrið var stillt og fallegt í gærkvöldi þegar veislan hélt áfram.

Í 19. aldar stíl

„Það er gamall draumur minn að reisa kirkju. Við erum með ferðaþjónustu og getum nýtt kirkjuna í sambandi við hana og ég er guðfræðingur. Þarna koma saman tvö helstu áhugamál mín, guðfræðin og byggingarlist nítjándu aldar,“ segir Birgir.

Verkefnið tengist einnig áhugamálum forsætisráðherra, eins og hann bendir á í samtali við Morgunblaðið, þjóðmenningunni, kirkjunni og byggingarlistinni. Þess vegna þætti honum sérstaklega áhugavert að taka þátt í athöfninni.

Þess má geta að staðurinn tengist ríkisstjórn Sigmundar Davíðs því að stór hluti af stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fór fram í íbúðarhúsinu í Minna-Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja, sem Birgir áformar að reisa í sumar, mun rúma 30 manns í sæti. Hann á þegar ýmsa muni til að nota í henni. Þannig eru gamlir kirkjubekkir úr Kálfatjarnarkirkju í hans eigu, sem og meira en 100 ára gömul skipsklukka sem mun verða kirkjuklukkan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert