Skilyrði skipunar gerðardóms brostin

Frá mótmælafundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Frá mótmælafundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Eggert Jóhannesson

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) segir skilyrði fyrir skipan gerðardóms í deilu FÍH og ríkisins hafa brostið þegar skrifað var undir kjarasamning. Ekki er gerð krafa um það í lögunum að aðilar nái samkomulagi, heldur einungis að þeir hafi skrifað undir samning.

Í 2. grein laganna sem sett voru til að stöðva verkfallið segir að hafi aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 1. júlí 2015 skal Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skal fyrir 15. ágúst 2015 ákveða kaup og kjör félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem upp eru talin í 1. grein.

Ólafur telur að skilyrði fyrir skipun gerðadóms hafi því brostið þegar FÍH og ríkið hafi skrifað undir kjarasamning. Í lögunum er ekki gerð krafa um að samningurinn sé samþykktur af félagsmönnum FÍH.

Engar aðrar forsendur í lögunum

„Það eru engar aðrar forsendur í lögunum um skipun gerðadóms og ekki talað um þetta í athugasemdum með frumvarpinu,“ segir Ólafur.

Til samanburðar má skoða lög sem sett voru á flugmenn Icelandair í fyrra, en í sambærilegri 2. grein laganna segir að hafi aðilar ekki náð samkomulagi 1. júní 2014 skal gerðardómur fyrir 1. júlí ákveða kaup og kjör. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laga þessara og gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður.

Orðalag laganna er svipað en ólíkt, því í lögunum frá árinu 2014 er gert ráð fyrir að aðilar hafi náð samkomulagi, en í lögunum sem sett voru á verkfall hjúkrunarfræðinga er kveðið á um að hafi kjarasamningur ekki verið undirritaður skuli kalla til gerðadóm. Hins vegar er óumdeilt að búið er að undirrita kjarasamning.

Er rangt af mér að álykta að þið túlkið það svo, þar sem þið eruð búin að skrifa undir, en ef félagsmenn fella samninginn, þá hafið þið fullan rétt til að fara aftur í verkfall?

„Ég er ekki viss með verkfallið. Við lítum á það þannig að verði samningurinn felldur þá sé ekki í rauninni hægt að skipa gerðardóm um þetta mál,“ segir Ólafur.

Forsendur fyrir skipun gerðardóms eru þá að ykkar mati brostnar?

„Já. Eina skilyrðið sem er fyrir skipun gerðardóms er eins og þú segir að ef við höfum ekki skrifað undir kjarasamning fyrir 1. júlí, þá verði skipaður gerðardómur. Um það er ekkert nánar fjallað þannig að við getum ekki annað en skilið lögin eins og þau eru skrifuð og teljum því að við getum sest að samningaborðinu og samið. En með verkfallið, ég get eiginlega ekki svarað því, það er aðeins teygjanlegar orðað,“ segir Ólafur. „Við lítum þannig á að það sé ekki hægt að skipa gerðardóm upp úr þessu.“

Jafnvel þótt að BHM semji ekki þá myndi sá gerðardómur sem yrði skipaður yfir deilu ríkisins og BHM ekki ná til ykkar?

„Hann ætti ekki að gera það, það er ekki okkar kjaradeila,“ segir Ólafur. „Lögfræðingar okkar er sammála þessari túlkun. Við getum bara lagt þann skilning í lögin eins og þau eru orðuð. Svo verður bara að kljást um þetta fyrir dómstólum komi til þess að kjarasamningur verði felldur og gerðardómur skipaður í kjölfarið.“

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka