Hvassahraun kemur best út

Mynd/Mannvit

Rögnu­nefnd­in svo­kallaða, sem nefnd er eft­ir Rögnu Árna­dótt­ur for­manni nefnd­ar­inn­ar, hefur nú skilað skýrslu sinni og niðurstöðum, en um er að ræða stýri­hóp um sam­eig­in­lega at­hug­un rík­is, Reykja­vík­ur­borg­ar og Icelanda­ir Group á flug­vall­ar­kost­um á höfuðborg­ar­svæðinu.

Að mati stýrihópsins er Hvassahraun sá flugvallarkostur sem hefur mesta þróunarmöguleika til framtíðar.

Stýrihópurinn vann út frá þeirri grunnforsendu að nýr flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu geti að lágmarki tekið við allri þeirri starfsemi sem nú er í Vatnsmýri. Var því verkefni stýrihópsins í fyrsta lagi að athuga hvort önnur flugvallarstæði en Vatnsmýri kæmu til greina fyrir rekstur innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu og í öðru lagi að leggja mat á rekstrargrundvöll og möguleg sóknarfæri sem nýr flugvöllur með þróunarmöguleika til framtíðar hefði í för með sér fyrir íbúa, ferðaþjónustu og atvinnulíf.

Könnun stýrihópsins beindist að fjórum nýjum flugvallarstæðum, en þau eru Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun og Löngusker. Þá voru einnig breyttar útfærslur á legu flugbrauta í Vatnsmýri skoðaðar.

Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að í samanburði við aðra flugvallarkosti kemur Hvassahraun vel út. Er þá litið til þátta eins og veðurfar, rýmis og hindrana, kostnaðar- og umhverfismála. „Þá kemur Hvassahraun best út þegar horft er til möguleika flugvallarstæða til að taka við flugumferð eða starfsemi umfram það sem nú er í Vatnsmýri.“ 

Veðurfar milt í Hvassahrauni

„Hvassahraun er því að mati stýrihópsins sá flugvallarkostur sem hefur mesta þróunarmöguleika til framtíðar, borið saman við aðra flugvallarkosti,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar segja veðurfar í Hvassahrauni vera frekar milt en þó gætir „áhrifa sjávarlofts á hitafar í mun minna mæli þar en t.d. á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Vindhraði er svipaður og á Reykjavíkurflugvelli en suðlægar áttir að vetri algengari í Hvassahrauni. Meðalhviðustuðullinn var svipaður og á Reykjavíkurflugvelli í öllum vindáttum nema norðlægum og norðaustlægum áttum.“

Skýrsluhöfundar benda þó einnig á að skoða þurfi ýmis atriði, þar á meðal mögulegar mótvægisaðgerðir vegna sjúkraflutninga. „Við frekari athugun á mögulegum flugvelli í Hvassahrauni verður einnig að taka með í reikninginn nálægð við Keflavíkurflugvöll, svo sem varðandi loftrými, flugferla og rekstur.“

Bent er á að nothæfisstuðull í Hvassahrauni er 96,4 til 97,2% fyrir tvær flugbrautir en 99,6% fyrir þrjár flugbrautir. „Flugkvikureikningar benda til að tíðni mikillar ókyrrðar í aðflugi í Hvassahrauni sé ekki vandamál samanborið við aðra flugvallarkosti. Þá eru möguleikar á nákvæmnisaðflugi ágætir í samanburði við önnur flugvallarstæði.“

Þá er stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi Reykjavíkurflugvallar áætlaður vera um 22 milljarðar króna „sem er jafnframt ódýrasti kosturinn.“

Löngusker dýrasti kosturinn

Hólmsheiði kemur lakar út að sögn skýrsluhöfunda en aðrir kostir að því er varðar nálægð við fjöll, veðurfar og hæð yfir sjávarmáli. Þegar kemur að mögulegum flugvallarstæðum á Bessastaðanesi og Lönguskerjum þarf að taka „veigamikla umhverfisþætti“ með í reikninginn. Að auki er bent á í skýrslunni að Löngusker er dýrasti kosturinn.

„Á Bessastaðanesi er rými til staðar fyrir flugbrautir og þá flugstarfsemi sem nú er í Vatnsmýri en þróunarmöguleikar takmarkaðir. Sömu sögu má segja á Lönguskerjum, en þar yrðu flugbrautir ekki lengdar og athafnasvæði stækkað nema með dýrum landfyllingum.“

Tillögur hópsins

Fram kemur í skýrslu stýrihópsins að málefni Reykjavíkurflugvallar hafa lengi verið bitbein og deilumál árum og áratugum saman. Er því mikilvægt að „allir aðilar samkomulagsins og aðrir hagsmunaaðilar í málinu komi að umræðunni um gögn stýrihópsins, umsögn og tilmæli með opnum huga og sanngirni.“

„Stýrihópurinn leggur til að aðilar samkomulagsins komi sér saman um næstu skref í málinu á grundvelli þeirra gagna sem hann hefur afl að:

Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum næsta vetur auk þess sem rekstrarskilyrði mismunandi útfærslu og hönnunar verði metin. Náist samstaða um það leggur stýrihópurinn til að stofnað verði sameiginlegt undirbúningsfélag í þessu skyni.

Samhliða telur stýrihópurinn nauðsynlegt að náð verði samkomulagi um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan nauðsynlegur undirbúningur og eftir atvikum framkvæmdir fara fram. Að sama skapi þarf að eyða óvissu um framtíð æfinga-, kennslu- og einkaflugs.

Ragna Árnadóttir formaður nefndarinnar kynnir niðurstöður.
Ragna Árnadóttir formaður nefndarinnar kynnir niðurstöður. mbl.is/Þórður Arnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka