„Ef það næst sama breiða sátt í samfélaginu og það náðist í nefndinni um þennan kost þá er óþarfi að ræða aðra kosti,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eftir fundinn þar sem skýrsla Rögnunefndarinnar var kynnt. „Umhverfi þessa flugvallarmáls er býsna flókið, þetta er áratugadeilumál.“ Hann lagði áherslu á að umræðan sem fer fram í kjölfarið byggi á þeim ýtarlegu gögnum sem Rögnunefndin safnaði saman og eru birt í skýrslunni og fylgiskjölum með henni.
„Rekstraraðilar í innanlandsflugi hafa lengi dregið það fram að það myndi hafa vondar afleiðingar fyrir innanlandsflugið að vera í Keflavík. Ég hef sjálfur hlustað á þessi rök og sagt að það þyrfti verulegar samgöngubætur til þess að það væri inni í myndinni,“ segir Dagur. Hann sagði að það væri farsælla ef hægt væri að ná sátt um flugvöll í Hvassahrauni. „Það var markmiðið með þessari vinnu að ná saman um einhvern kost sem flestir ef ekki allir gætu sætt sig við. Núna reynir á það,“ segir Dagur.
„Ég held að ekkert okkar í samráðsnefndinni hafi verið með Hvassahraun efst í huga þegar við settumst niður á fyrsta fundi, en gögnin, vinnan, rannsóknirnar og rökin leiddu okkur til þess. Mér finnast það mikil tímamót að það hafi náðst einhuga samstaða í þessum hópi og ég vona að allir mæti til umræðunnar með opnum huga í kjölfarið og komist að sömu niðurstöðu og við,“ segir Dagur.
Hann sagði jafnframt að ef vilji væri til að skoða alvarlega flutning flugvallarins í Hvassahraun, þá væri vilji hjá Reykjavíkurborg til að tryggja rekstrarumhverfi flugvallarins í Vatnsmýrinni meðan það ferli væri í gangi. „Ef það getur orðið til þess að það verði sátt um að fara í þennan leiðangur, þá finnst mér það algjörlega þess virði og meira en það,“ segir Dagur.
Niðurstöður nefndarinnar voru einna helst þær að frekari skoðunar væri þörf á Hvassahrauni sem flugvallarstæði. Ragna Árnadóttir, formaður nefndarinnar, gat þó ekki gefið upp tímaramma um hvenær ítarlegri könnun á Hvassahrauni myndi ljúka. „Ég get það í raun og veru ekki. Við segjum við að þau mál verði könnuð næsta vetur, en það er í raun algjörlega opið. Það getur tekið mun lengri tíma. Það fer eftir þeim gögnum sem týnast inn og vilja aðila til að skoða þetta áfram,“
Hún sagðist vona innilega að skýrslan væri skref í átt til þess að hægt væri að ræða framtíð flugvallarins í meiri sátt. „Það eru heilmiklar upplýsingar í þessari skýrslu sem ættu að geta nýst í framhaldinu.“