„Var hlutverk nefndarinnar að finna stað fyrir nýjan alþjóðavöll?“ spyr Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Facebook-síðu sinni í kvöld vegna skýrslu Rögnunefndarinnar svonefndrar um Reykjavíkurflugvöll en niðurstaða skýrslunnar er að Hvassahraun í Hafnarfirði sé besti kosturinn fyrir nýjan flugvöll í stað Reykjavíkurflugvallar.
Ragnheiður segist ekki vita hvar hún eigi að byrja varðandi skýrsluna. Hún spyr ennfremur hvort nágrannar Keflavíkurflugvallar hafi verið að berjast fyrir því að hann yrði fluttur og hvort skortur sé á landrými við þann flugvöll. „Hefur umræðan um fleiri gáttir millilandaflugs til að dreifa ferðamönnum um landið snúist um að fjölga gáttum á Stór-Keflavíkursvæðinu?“
Þá spyr ráðherrann hvort fyrir hendi séu 22-25 milljarða aflögu til að byggja nýjan flugvöll í korters fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli eins og skýrslan geri ráð fyrir. Tekur hún fram að það sé varlega áætlaður kostnaður. „Nei, nú held ég að menn ættu að snúa sér aftur að verkefninu. Það snerist um það hvort innanlandsflugið ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Þetta er ekki lausnin á því.“