„Verið að vekja upp gamlan draug“

Ómar Ragnarsson.
Ómar Ragnarsson. mbl.is/Eggert

„Það er verið að vekja upp gamlan draug,“ segir Ómar Ragnarsson um niðurstöður Rögnunefndarinnar svokölluðu um að Hvassahraun, sem er á mörkum Hafnarfjarðar og Voga, sé besti flugvallarkosturinn komi til þess að Reykjavíkurflugvöllur verði færður úr Vatnsmýrinni.

Í samtali við mbl.is segir hann að hugmyndir hafi verið uppi fyrir um 55 árum um flugvöll í Kapelluhrauni, skammt frá Hvassahrauni. Sú hugmynd hafi hins vegar verið slegin af borðinu eftir að menn höfðu prófað að fljúga flugvélum til skiptis að og frá Reykjavíkurflugvelli í hvassri aust-suðaustanátt, sem er algengasta vindáttin á höfuðborgarsvæðinu, og jafnframt að og frá hugsanlegu flugvallarstæði við Hvassahraun.

„Hefur Reykjanesfjallgarðurinn fjarlægst og lækkað síðustu 55 árin og hefur vindurinn minnkað?“ spyr Ómar.

Hann segir að í ljós hafi komið á sínum tíma að vegna þess að flugvöllur í Hvassahrauni yrði helmingi nær fjöllunum fyrir austan Reykjavík heldur en völlur í Vatnsmýrinni yrði ókyrrð svo miklu meiri þar en í Reykjavík. „Niðurstaðan var því sú að það yrði hið mesta óráð að hafa flugvöll svona nálægt fjallgarðinum.“

Hann bendir á að ekki sé aðeins hægt að mæla vindinn niðri við jörð. Líta verði til þess að landfræðilegar aðstæður, eins og nálægð fjalla sem vindurinn fer yfir, geti valdið því að miklu verri ókyrrð verði á þeim stað sem er nær fjöllum en þeim stað sem fjær er.

Nauðsynlegt sé, til að rannsaka þetta betur, að gera það sama og fyrir 55 árum og fljúga að og frá báðum vallarstæðunum í algengustu hvassviðrisáttinni á sama tíma.

Styttist í eldgosahrinu

Ómar segir það einnig einkennilegt að skýrsluhöfundar taki fram hve hlýtt veður sé í Hvassahrauni. „Orðalagið er mjög sérkennilegt. Það er auðvitað mesta ófærðin á Reykjanesbrautinni þarna og versta veðrið.“

Í skýrslu Rögnunefndarinnar segir að veðurfar í Hvassahrauni sé fremur milt en þó gæti áhrifa sjávarlofts á hitafar í mun minni mæli þar en til dæmis á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Vindhraði sé svipaður og á Reykjavíkurflugvelli en suðlægar áttir að vetri algengari í Hvassahrauni. 

Ómar segir að lokum að það styttist í eldgosahrinu á Reykjanesskaga. „Þessi flugvöllur verður settur á hraun en það er lítil hætta á því að hraun muni renna niður í Fossvog og inn í Vatnsmýrina,“ bendir hann á.

mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert