„Ég átti nú síður von á því að Hvassahraun yrði fyrir valinu. Mín fyrirfram skoðun var sú að breytingar í Vatnsmýrinni yrðu ofan á og að flugvallarstæðið þar yrði nýtt áfram. Þetta kom mér því svolítið á óvart,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, í samtali við mbl.is og vísar þar til niðurstöðu stýrihóps ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair.
Fram kemur í niðurstöðum hópsins, sem kynntar voru í gær, það álit að Hvassahraun sé besti kosturinn fyrir nýjan innanlandsflugvöll. Var nefndinni falið að kanna aðra kosti en Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri.
Halldór bendir á að hann vilji áfram nálgast verkefnið með opnum hug og felur slíkt meðal annars í sér að farið verði náið yfir kosti og galla. „Það er vafalaust margt sem á eftir að koma fram í umræðunni á næstunni,“ segir hann.
Áætlaður stofnkostnaður nýs flugvallar er samkvæmt skýrsluhöfundum um 22 milljarðar króna. Leggur hópurinn jafnframt til að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð sem og rekstrarskilyrði. Telur stýrihópurinn einnig nauðsynlegt að ná samkomulagi um að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri á meðan unnið sé að framkvæmdinni.
Undir þetta tekur Halldór.
„Ég legg ofuráherslu á mikilvægi þess að tryggja áfram rekstaröryggi flugsins í Vatnsmýri meðan á þessu stendur. Það er niðurstaða nefndarinnar og í raun um leið loforð af hálfu Reykjavíkurborgar vegna þess að fulltrúi borgarinnar er í nefndinni,“ segir Halldór en fyrir Reykjavíkurborg situr í stýrihópnum Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
„Þar til að nýr flugvöllur, hvar svo sem hann verður, er tilbúinn verður rekstraröryggi flugs í Vatnsmýri tryggt. Það er auðvitað mjög mikilvægt atriði,“ segir Halldór.