Sú myndbirting sem átti sér stað á Facebook-hóp leigubílsstjóra var alls ekki rétt og best væri að komið væri í veg fyrir að bílstjórar komist sjálfir í myndavélabúnað sem settur hefur verið í suma bíla. Þetta segir Ástgeir Þorsteinsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama í samtali við mbl.is. Í dag var fjallað um umræddan hóp í Morgunblaðinu, en þar kom fram að leigubílstjórar hefðu dreift myndum af farþegum, skilríkjum þeirra og jafnvel myndbandsupptöku úr bílum.
Ástgeir segir að hann hafi alltaf undrað sig á því að menn komist upp með að setja myndavélar í bíla eins og gert sé í dag og að kröfur Persónuverndar séu ekki nægjanlegar. „Það eru ekki gerðar neinar kröfur,“ segir hann aðrar en að koma fyrir límmiða í glugga bílsins sem segi að upptaka sé í gangi. „Þú þarft bara að setja límmiða í gluggann og getur svo bara leið þér með þetta,“ segir Ástgeir.
Hann segir að myndavélar eigi að vera í bílum myndi hann sjálfur vilja sjá kerfi þar sem ómögulegt væri fyrir bílstjórana að komast í gögnin og að það væri t.d. aðeins á færi lögreglunnar. Segir hann alls ekki rétt að menn séu að komast í þessi gögn og hvað þá að þau séu birt. „Menn verða að gæta sín,“ segir hann.
Aðspurður um ástæður þess að bílstjórar séu að birta myndir af fólki á þessum vettvangi segir Ástgeir að einhverjir hafi talið sig vera hlunnfarna af viðskiptavinum. Hann segir slíkt þó ekki réttlæta svona birtingu og þá segir allt tal um að fólk sé að koma sér hjá því að greiða fargjald vera ofaukið.
Segir hann rétt að það komi upp tilfelli þar sem sömu einstaklingarnir komi trekk í trekk og reyni að komast hjá greiðslum. Oftast sé þó um að ræða svokallað ógæfufólk og það spyrjist fljótt út og menn taki það þá ekki upp í bílana.
Samkvæmt því sem mbl.is hefur heyrt frá bílstjórum sem þekkja til hópsins var um að ræða myndir af 4-5 einstaklingum sem bílstjórar sökuðu um að greiða ekki fargjald. Töldu þeir að lögregla hefði ekkert gert þegar slík dæmi voru tilkynnt og að þetta væri þeirra eina leið til að verja sig.
Aðspurður hvort það sé rétt að lögreglan hafi ekki reynst bílstjórum hjálpsöm í málum sem þessum segir Ástgeir að það sé rétt. „Okkur hefur fundist það,“ segir hann og bætir við „stundum finnst mér þeir sérlega latir að sinna okkur.“ Ástgeir ítrekar þó að hann telji myndbirtingar sem þessar alls ekki vera svar við því, enda sé þarna verið að birta myndir af fólki sem ekki geti sagt sína hliðs málsins.
Sjálfur segir Ástgeir að hann hafi vitað af síðunni í einhvern tíma, en hann verið búinn að gera athugasemdir til forsvarsmanna hennar vegna þess sem kom þar fram. „Þarna voru miklar persónuupplýsingar og svo skítkast á aðra bílstjóra,“ segir Ástgeir um það sem fram kom á síðunni.
Margir bílar hafa undanfarið komið sér upp myndavélabúnaði eins og rætt er um í fréttinni, en Ástgeir segir að enn þá séu þeir bílar þó í minnihluta. Aðspurður hvort hann telji rétt að farþegar geti farið fram á að slökk verði á upptökum í ljósi þessarar reynslu telur hann ekki svo vera. Bendir hann á að Persónuvernd hafi gefið samþykki fyrir þessu, þó hann telji sjálfur þær kröfur vera í mýflugumynd. Þá hafi upptökur komið sér vel þegar upp komi ágreiningsmál, en hann segir að bæta þurfi kerfið þannig að einstaklingar geti ekki farið sjálfir í upptökurnar, heldur verði það aðeins á forræði lögreglunnar.