Flugvallarumræðu hvergi lokið

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að þótt Rögnunefndin hafi nú skilað skýrslu sinni sé flugvallarumræðunni hvergi nærri lokið. Í hennar huga standi það upp úr að nefndin leggur til að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt, a.m.k. í bili.

„Ég er rétt byrjuð að rýna skýrslu stýrihópsins, vegna þess að þessa dagana eru annir miklar. Það er gott að skýrslan er komin út og að Rögnunefndin svokallaða hafi lokið störfum. Ég þakka nefndinni fyrir hennar störf,“ sagði Ólöf í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Það stendur auðvitað upp úr í mínum huga, í tillögum nefndarinnar, sú áhersla sem lögð er á að samkomulag verði um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt, að minnsta kosti í bili. Það skiptir miklu máli og eins það að í þessu starfi sínu er nefndin að horfa til langs tíma,“ sagði ráðherra.

Ólöf segir að það sé ákveðin langtímahugsun í þeim forsendum sem skýrsluhöfundar gefa sér, sem sé jákvætt. „Það þarf að hafa það í huga, að allt skipulag flugrekstrar þarf að vera til langs tíma og það þarf að vera ákveðinn fyrirsjáanleiki. Það er það sem við höfum haft áhyggjur af, sem rekum flugvöllinn í Vatnsmýrinni, að menn verða að hafa fyrir sér talsvert langan tíma, áður en ráðist er í breytingar í flugrekstri. Með þessari skýrslu er því fengin ákveðin niðurstaða, en flugvallarumræðunni er hvergi nærri lokið með henni,“ sagði Ólöf.

Innanríkisráðherra segir að næstu skref, hvað varðar störf ráðuneytisins, sem lúti að skýrslunni, verði að rýna skýrsluna í þaula og næstu skref verði ákveðin að þeirri vinnu lokinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert