Fullur bær á Lummudögum

„Hátíðin hefur gengið alveg eins og í sögu og við hefðum ekki getað fengið betra veður,“ segir Ása Svanhildur Ægisdóttir, en hún sér um Lummudaga á Sauðárkróki sem farið hafa fram síðustu daga. „Hér er líka Landsbankamót þannig að bærinn er troðfullur af fólki,“ segir Ása.

Lummudagar fara nú fram í sjöunda sinn og eru orðnir árviss viðburður að sögn Ásu. „Þetta fer stækkandi með hverju árinu. Loftboltarnir voru á svæðinu eins og í fyrra og vöktu mikla lukku. Bæði var haldið loftboltamót og síðan voru þeir hafðir á grasfleti fyrir krakkana að prófa.“  Ýmis skemmtiatriði fóru einnig fram, en t.a.m. mætti skemmtikrafturinn Wally og lék listir sínar fyrir gesti.

Hátíðinni lýkur í dag, en hún hefur staðið yfir í þrjá daga  „Setningarhátíðan var á fimmtudaginn. Þá var blakmót, fiskisúpa í boði og bara létt stemning. Í gær var síðan sápuboltamót og fatasund í sundlauginni, tónleikar og mikið fjör. Í dag var svo aðal dagurinn, en hápunkturinn var glæsilegur markaður, þar sem fjöldi fólks mætti,“ segir Ása.

Tónlistarhátíðin Drangey Music Festival fór fram í kvöld á Reykjum á Reykjaströnd, skammt norðan Sauðárkróks, en hún var lokahnykkurinn í hátíðarhöldunum. Meðal tónlistarmanna sem komu fram voru Emiliana Torrini, Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar, Úlfur Úlfur og Contangel Funeral.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert