„Illskan er ógnandi og heillandi í senn. Hún er og verður drifkraftur sem maður ber óttablandna virðingu fyrir og þegar maður kynnist hreinræktuðum illmennum, eins og Hitler eða einhverjum fjöldamorðingjum, vekur það forvitni manns. Hvers vegna urðu þessir menn svona? Hvernig virka þeir og eru þetta yfir höfuð menn?“
Þetta er haft eftir rithöfundinum Stefáni Mána, sem skapað hefur ófá illmennin í skáldsögum sínum, í grein um illsku í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
Hvað er illska og hvað veldur henni? Hvers vegna er fólk andstyggilegt við annað fólk og vinnur því jafnvel mein? Er það minnimáttarkennd, óöryggi, siðblinda eða jafnvel peningaskortur? Og hvað er til ráða? Er hægt að einangra illskuna og halda henni þannig í skefjum? Jafnvel hreinsa fólk af illskunni? Eða býr einfaldlega illt og gott í öllum mönnum?
Haldi einhver að einfalt sé að uppræta vandamálið, það er illskuna, skýtur rússneski rithöfundurinn Aleksandr Solzhenitsyn það rækilega niður. „Bara að þetta væri svo einfalt!“ sagði hann. „Bara að það væru einhvers staðar illmenni að fremja ódæði og það eina sem þyrfti að gera væri að greina þau frá okkur hinum og ganga milli bols og höfuðs á þeim. En línan sem skilur að góðmennsku og illsku liggur gegnum hjartað á sérhverri manneskju. Og hver vill tortíma hluta af sínu eigin hjarta?“
Kannski er illska mannanna tilviljunum háð, alltént ef marka má bandaríska skáldið T.S. Eliot en hann var þeirrar skoðunar að það sem hefði slæmar afleiðingar í þessum heimi væri yfirleitt á ábyrgð manna með góðan ásetning.
Enski furðusagnahöfundurinn Terry Pratchett var hins vegar á því að rótin lægi hjá okkur sjálfum. „Illskan sprettur fram þegar við byrjum að umgangast fólk eins og hluti,“ sagði hann.
Margir tengja illskuna við völd og bandaríski heimspekingurinn Eric Hoffer benti einmitt á, að illskan heillaði oft þá veiklyndu, eða þá sem minna mega sín, enda færði hún þeim vald og styrk.
Svo eru það auðvitað peningarnir. Í huga bandaríska rithöfundarins Marks Twains var málið ekki flókið: „Peningar eru rót alls ills.“