Segir niðurstöðuna vonbrigði

Sigurður Einarsson og lögmaður hans, Gestur Jónsson, koma til réttarsals …
Sigurður Einarsson og lögmaður hans, Gestur Jónsson, koma til réttarsals við aðalmeðferð málsins. mbl.is/Árni Sæberg

Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður Kaupþings, hef­ur sent frá sér yf­ir­lýs­ingu í kjöl­far fang­els­is­dóms­ins sem hann hlaut í héraðsdómi Reykja­vík­ur í gær í markaðsmis­notk­un­ar­mál­inu svo­kallaða.

Seg­ist Sig­urður ekki hafa vitað hvernig viðskipt­in með hluta­bréf í bank­an­um hafi verið út­færð, né hafi hann verið í sam­skipt­um við þá starfs­menn bank­ans sem störfuðu í deild­inni. 

Þá bend­ir Sig­urður á að hann hafi verið formaður stjórn­ar banka og hafi haft starfsaðstöðu í London frá ár­inu 2003. Bank­inn hafi verið með starf­semi í 13 lönd­um og þar hafi starfað nokk­ur þúsund manns. Seg­ir Sig­urður það því segja sig sjálft að hann hafi ekki getað fylgst með dag­legri starf­semi bank­ans í ein­stök­um lönd­um. 

Þá tjá­ir Sig­urður sig einnig um síðari ákæru­atriðið er sneri að umboðssvik­um. Varðaði það lán­veit­ingu bank­ans þann 19. sept­em­ber 2008 og samþykkt var á fundi lána­nefnd­ar stjórn­ar þann 24. sept­em­ber sama ár. Komst héraðsdóm­ur að þeirri niður­stöðu að með lán­veit­ing­unni hafi fjár­mun­um Kaupþings verið stefnt í mikla hættu.

Sig­urður bend­ir hins veg­ar á að um­rætt lán hafi verið greitt upp að fullu þrem­ur dög­um síðar, þan 22. sept­em­ber. 2008. Það hafi því verið úti­lokað að ákvörðun sem tek­in var eft­ir að lánið hafði að fullu verið end­ur­greitt hafi stofnað fjár­mun­um Kaupþings í veru­lega hættu.

Yf­ir­lýs­ing Sig­urðar í heild sinni:

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur sýknaði mig í dag af öll­um ákæru­atriðum í svo­kölluðu markaðsmis­notk­un­ar­máli nema tveim­ur.

Fyrra til­vikið varðar starf­semi deild­ar eig­in viðskipta Kaupþings á Íslandi. Dóm­ar­arn­ir segja að þar hafi átt sér stað markaðsmis­notk­un með því að setja fram á markaði kauptil­boð í hluta­bréf og þar með verið rang­lega gef­in til kynna eft­ir­spurn eft­ir hluta­bréf­un­um. Ég sagði fyr­ir dómi að ég hafi vitað af starf­semi deild­ar­inn­ar, sem m.a. hafði þann til­gang  að tryggja hlut­höf­um bank­ans og öðrum að þeir gætu hvenær sem er átt viðskipti með hluta­bréf í bank­an­um á markaðsverði. Ég hafi hins veg­ar ekk­ert vitað um hvernig viðskipt­in voru út­færð og hafi aldrei verið í sam­skipt­um við þá starfs­menn bank­ans sem störfuðu í deild­inni. Í for­send­um dóms­ins er sagt að með til­liti til stöðu minn­ar í bank­an­um sé ekki óvar­legt að telja sannað, þrátt fyr­ir neit­un mína, að markaðsmis­notk­un­in hafi verið að mínu und­ir­lagi. Síðan er því bætt við að ótrú­verðugt sé að æðstu stjórn­end­um bank­ans hafi ekki verið kunn­ugt um hvernig deild eig­in viðskipta vann! Ég var formaður stjórn­ar bank­ans með starfsaðstöðu í London frá ár­inu 2003. Bank­inn var með starf­semi í 13 lönd­um og þar störfuðu nokk­ur þúsund manns.  Ég reyndi að hafa sýn yfir starf­semi bank­ans en það ætti að segja sig sjálft að ég gat ekki fylgst með því sem gerðist í dag­legri starf­semi bank­ans í ein­stök­um lönd­um. Ég hélt að sönn­un­ar­byrði um sekt hvíldi á ákæru­vald­inu. Mér er fyr­ir­munað að skilja þessa álykt­un dóm­ar­anna enda er hún röng.

Seinna til­vikið varðar lán sem veitt var 19. sept­em­ber 2008 sem talið var fela í sér umboðssvik. Kom­ist var að niður­stöðu um að með lán­veit­ing­unni hafi fjár­mun­um Kaupþings verið stefnt í mikla hættu. Í ákær­unni kem­ur fram að láns­beiðni hafði verið af­greidd í lána­nefnd bank­ans (lána­nefnd sam­stæðu) og þaðan verið vísað til lána­nefnd­ar stjórn­ar þar sem ég sat ásamt þrem­ur öðrum mönn­um. Við samþykkt­um lán­veit­ing­una á fundi 24. sept­em­ber 2008. Vegna þessa samþykk­is erum við Hreiðar Már sak­felld­ir fyr­ir umboðssvik. Í ákær­unni kem­ur fram að um­rætt lán, sem veitt var 19. sept­em­ber 2008, var greitt upp að fullu þrem­ur dög­um síðar, þ.e. þann 22. sept­em­ber 2008. Þess vegna var úti­lokað að ákvörðun okk­ar sem tek­in var eft­ir að lánið hafði að fullu verið end­ur­greitt hafi stofnað fjár­mun­um Kaupþings í veru­lega hættu.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykja­vík­ur í þessu máli veld­ur mér mikl­um von­brigðum. Ég trúi því að all­ir þeir sem ákærðir voru í mál­inu hafi unnið með heill bank­ans að leiðarljósi og talið sig fylgja þeim lög­um og regl­um sem giltu í land­inu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert