Segir niðurstöðuna vonbrigði

Sigurður Einarsson og lögmaður hans, Gestur Jónsson, koma til réttarsals …
Sigurður Einarsson og lögmaður hans, Gestur Jónsson, koma til réttarsals við aðalmeðferð málsins. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar fangelsisdómsins sem hann hlaut í héraðsdómi Reykjavíkur í gær í markaðsmisnotkunarmálinu svokallaða.

Segist Sigurður ekki hafa vitað hvernig viðskiptin með hlutabréf í bankanum hafi verið útfærð, né hafi hann verið í samskiptum við þá starfsmenn bankans sem störfuðu í deildinni. 

Þá bendir Sigurður á að hann hafi verið formaður stjórnar banka og hafi haft starfsaðstöðu í London frá árinu 2003. Bankinn hafi verið með starfsemi í 13 löndum og þar hafi starfað nokkur þúsund manns. Segir Sigurður það því segja sig sjálft að hann hafi ekki getað fylgst með daglegri starfsemi bankans í einstökum löndum. 

Þá tjáir Sigurður sig einnig um síðari ákæruatriðið er sneri að umboðssvikum. Varðaði það lánveitingu bankans þann 19. september 2008 og samþykkt var á fundi lánanefndar stjórnar þann 24. september sama ár. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að með lánveitingunni hafi fjármunum Kaupþings verið stefnt í mikla hættu.

Sigurður bendir hins vegar á að umrætt lán hafi verið greitt upp að fullu þremur dögum síðar, þan 22. september. 2008. Það hafi því verið útilokað að ákvörðun sem tekin var eftir að lánið hafði að fullu verið endurgreitt hafi stofnað fjármunum Kaupþings í verulega hættu.

Yfirlýsing Sigurðar í heild sinni:

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði mig í dag af öllum ákæruatriðum í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli nema tveimur.

Fyrra tilvikið varðar starfsemi deildar eigin viðskipta Kaupþings á Íslandi. Dómararnir segja að þar hafi átt sér stað markaðsmisnotkun með því að setja fram á markaði kauptilboð í hlutabréf og þar með verið ranglega gefin til kynna eftirspurn eftir hlutabréfunum. Ég sagði fyrir dómi að ég hafi vitað af starfsemi deildarinnar, sem m.a. hafði þann tilgang  að tryggja hluthöfum bankans og öðrum að þeir gætu hvenær sem er átt viðskipti með hlutabréf í bankanum á markaðsverði. Ég hafi hins vegar ekkert vitað um hvernig viðskiptin voru útfærð og hafi aldrei verið í samskiptum við þá starfsmenn bankans sem störfuðu í deildinni. Í forsendum dómsins er sagt að með tilliti til stöðu minnar í bankanum sé ekki óvarlegt að telja sannað, þrátt fyrir neitun mína, að markaðsmisnotkunin hafi verið að mínu undirlagi. Síðan er því bætt við að ótrúverðugt sé að æðstu stjórnendum bankans hafi ekki verið kunnugt um hvernig deild eigin viðskipta vann! Ég var formaður stjórnar bankans með starfsaðstöðu í London frá árinu 2003. Bankinn var með starfsemi í 13 löndum og þar störfuðu nokkur þúsund manns.  Ég reyndi að hafa sýn yfir starfsemi bankans en það ætti að segja sig sjálft að ég gat ekki fylgst með því sem gerðist í daglegri starfsemi bankans í einstökum löndum. Ég hélt að sönnunarbyrði um sekt hvíldi á ákæruvaldinu. Mér er fyrirmunað að skilja þessa ályktun dómaranna enda er hún röng.

Seinna tilvikið varðar lán sem veitt var 19. september 2008 sem talið var fela í sér umboðssvik. Komist var að niðurstöðu um að með lánveitingunni hafi fjármunum Kaupþings verið stefnt í mikla hættu. Í ákærunni kemur fram að lánsbeiðni hafði verið afgreidd í lánanefnd bankans (lánanefnd samstæðu) og þaðan verið vísað til lánanefndar stjórnar þar sem ég sat ásamt þremur öðrum mönnum. Við samþykktum lánveitinguna á fundi 24. september 2008. Vegna þessa samþykkis erum við Hreiðar Már sakfelldir fyrir umboðssvik. Í ákærunni kemur fram að umrætt lán, sem veitt var 19. september 2008, var greitt upp að fullu þremur dögum síðar, þ.e. þann 22. september 2008. Þess vegna var útilokað að ákvörðun okkar sem tekin var eftir að lánið hafði að fullu verið endurgreitt hafi stofnað fjármunum Kaupþings í verulega hættu.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í þessu máli veldur mér miklum vonbrigðum. Ég trúi því að allir þeir sem ákærðir voru í málinu hafi unnið með heill bankans að leiðarljósi og talið sig fylgja þeim lögum og reglum sem giltu í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert