„Það eru allir glaðir, vinka okkur og veifa,“ segir Júlía Halldóra Gunnarsdóttir, sjúkraliði í Vogum, sem lögð er af stað í hringferð um landið á gamalli Farmall Cub-dráttarvél og kúrekakerru ásamt manni sínum, Helga Guðmundssyni húsasmið. „En þetta er bilun,“ bætir hún við.
Júlía og Helgi hafa áður lagt í langferð á traktornum, þau fóru yfir Kjöl fyrir fimmtán árum. Þau sofa í kerrunni, hún er „tjaldvagn“ þeirra.
„Þetta er æðislegt. Við komumst í nána snertingu við landið. Sjáum hreiðrin í vegkantinum og allt það. Verst hvað við förum hægt yfir, traktorinn fer ekki nema á 10 kílómetra hraða,“ segir Júlía. Það þýðir að þau taka sér heldur lengri tíma í ferðina en WOW-hjólakapparnir sem þau mættu í Krýsuvík í gær, en þau reikna með að verða þrjár vikur til mánuð í ferðinni.