„Ég er bara að fara með þá út eftir korter, og leiðin liggur til Akureyrar,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði, en hollenska skemmtiferðaskipið Ryndam kom í höfn í bænum í morgun með um 1.300 farþega uum borð. Talið er að um 100 farþegar séu smitaðir af svokallaðri nóróveiru og var þeim haldið í einangrun um borð í skipinu í dag. RÚV sagði frá málinu fyrr í morgun, en upplýsingar um veiruna komu fyrst fram í frétt DV í gær.
Samkvæmt vef landlæknis eru helstu einkenni veirunnar ógleði, uppköst, niðurgangur og stundum magakrampar. Þá fá sumir að auki væga hitahækkun, hroll, höfuðverk, vöðvaverki og þreytu. Veikindin byrja skyndilega og vara stutt, yfirleitt einn til tvo daga. Veikin er bráðsmitandi, en fram kemur að einkenni sjáist yfirleitt um 24 til 48 klukkustundum eftir smitun. Er fólk þá smitandi og yfirleitt í 3 daga eftir að einkenni hætta.
Aðrir farþegar komu í land í bænum í dag, en Guðmundur áætlar að um þúsund manns úr skipinu hafi verið þar á ferðinni. Sérstakt teymi í skipinu sér hins vegar um að huga að hinum veiku og halda þeim í einangrun. „Þetta er bara „pice of cake“ eins og þeir segja. Allt gengur eðlilega fyrir sig og haldið hefur verið vel utan um þetta vandamál um borð,“ segir Guðmundur. Hann segir engan hafa leitað á sjúkrahús vegna veikindanna.
Það hefur semsagt ekki örlað á niðurgangi hjá Ísfirðingum í dag?
„Nei, hann kemur ekki fyrr en á morgun eða hinn,“ segir Guðmundur léttur í bragði og bætir því við að „bongóblíða“ sé í bænum og allir kátir.