Ljósmyndari sem fór með hóp nemenda á Árbæjarsafn til að mynda var krafinn um 20.000 króna gjald vildi hann vera með þrífætur fyrir myndavélarnar. Safnstjóri safnsins segir gjaldið hafa verið lagt á til að gæta tillitssemi við aðra gesti sem hafi kvartað undan ágangi ljósmyndara á safninu.
Pálmi Guðmundsson, ljósmyndari og leiðbeinandi hjá ljósmyndari.is, ætlaði með hóp nokkurra nemenda á Árbæjarsafn laugardaginn 6. júní til að láta þá taka myndir á svæðinu án þess þó að fara inn í húsin á safninu. Hópurinn hafi komið rétt fyrir tíu en þegar hann ætlaði inn hafi hliðinu verið lokað.
„Þegar við vorum komin í gegn með þrífætur þá kom vörður út og sagði: „Heyrðu, þið labbið ekkert hérna um með þrífætur nema borga fyrir það 20.000 kall“,“ segir Pálmi.
Hann hafi margspurt vörðinn hvers vegna hann þyrfti að borga fyrir það og ítrekað að hópurinn ætlaði ekki inn í húsin en aðeins fengið þau svör að þetta væru reglur safnsins. Pálmi segir á endanum hafi hópurinn skilað þrífótunum í bílana og farið svo að mynda. Það hafi hópurinn mátt án þess að greiða annað en almennt gjald.
„Það var í lagi en það mátti ekki nota þrífótinn,“ segir Pálmi sem var ekki sáttur. Hann hafi áður farið um svæðið og myndað án þess að það hafi verið neitt vandamál.
„Það sem liggur til grundvallar fyrst og fremst er að við höfum fengið kvartanir frá öðrum gestum, sérstaklega hópum, skipahópum og öðru slíku þegar ljósmyndarar eða kvikmyndatökufólk hefur verið með mikil umsvif. Þetta er gert til að koma til móts við það sjónarmið og hafa stjórn á því,“ segir Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafnsins sem sér meðal annars um Árbæjarsafn.
Hann segist ekki þekkja til þessa máls sérstaklega en ábygglega séu ýmis mál sem séu á gráu svæði. Það sé þá í höndum leiðsögumanna safnsins að meta stöðuna eftir þeim viðmiðum að ljósmyndunin trufli ekki aðra gesti. Reglan um þrífæturna sé hugsuð til þess að takmarka umsvifin á myndatökunum. Hann telur þó að myndatökunámskeið af því tagi sem Pálmi stóð fyrir ætti hugsanlega að falla undir gjaldtökuna, þó að eingöngu hafi verið rukkað fyrir aðgang að safninu.
Annars hafi Árbæjarsafn verið jákvætt gagnvart ljósmyndun og kvikmyndatökum á safninu en yfirleitt sé reynt að beina þeim utan opnunartíma safnsins. Leiðsögumenn safnsins hafi meðal annars boðið Pálma að gera það en hann hafi ekki viljað þiggja það.
„Grunnurinn í þessu er tillitssemi við aðra gesti, að þeir geti farið óhindrað um og að sviðsmyndin skemmist ekki af því að það séu mikil önnur umsvif,“ segir Guðbrandur.