Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lést á föstudagskvöldið, 71 árs að aldri. Hann hafði setið sem alþingismaður Reykvíkinga síðan 1995. Banamein Péturs var krabbamein og lést hann í faðmi fjölskyldunnar.
Útför Péturs mun fara fram í kyrrþey að hans ósk, en þeim sem vilja minnast hans er bent á Minningarsjóð krabbameinslækningadeildar.
Pétur fæddist í Reykjavík 24. júní 1944. Foreldrar hans voru Haraldur H. J. Blöndal, sjómaður og verkamaður, og Sigríður G. Blöndal skrifstofumaður. Pétur lauk stúdentsprófi frá MR árið 1965 og diplom-prófi í eðlisfræði, stærðfræði og tölvufræði við Kölnarháskóla 1968. Hann lauk svo diplom-prófi í hagnýtri stærðfræði, líkindafræði, tölfræði, tryggingastærðfræði og alþýðutryggingum við Kölnarháskóla 1971 og doktorsprófi við sama háskóla 1973.
Pétur starfaði sem sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands á árunum 1973–1975. Hann var stundakennari við Háskóla Íslands 1973–1977 og forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna 1977–1984. Þá sinnti hann tryggingafræðilegi ráðgjöf og útreikningum fyrir lífeyrissjóði og einstaklinga árin 1977–1994. Pétur var framkvæmdastjóri Kaupþings hf. 1984–1991 og kennari við Verslunarskóla Íslands 1991–1994. Hann var starfandi stjórnarformaður Tölvusamskipta hf. 1994–1995. Frá 1995 til þessa dags starfaði Pétur sem alþingismaður.
Pétur kvæntist tvisvar og var fyrst giftur Moniku Blöndal og eignaðist fjögur börn áður en þau skildu en seinna eignaðist Pétur tvö börn til viðbótar með sambýliskonu sinni Guðrúnu Birnu Guðmundsdóttur. Eftirlifandi eiginkona Péturs er Eyrún Rós Árnadóttir. Eftirlifandi börn Péturs eru Davíð, Dagný, Stefán Patrik, Stella María, Baldur og Eydís.