Kostnaður á bilinu 40-90 milljarðar

Nýju svæðisskipulagi var fagnað í Höfða í dag.
Nýju svæðisskipulagi var fagnað í Höfða í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlaður kostnaður við svokallaða Borgarlínu sem fjallað er um í nýju skipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið hleypur á 40-90 milljörðum króna. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir skipulagið marka tímamót, en þar eru lagðar línurnar fyrir skipulag og uppbyggingu í þeim sjö sveitarfélögum sem mynda höfuðborgarsvæðið.

Samkomulag um Höfuðborgarsvæðið 2040 var staðfest með undirritun í Höfða í dag en undirbúningur að skipulaginu hefur staðið yfir frá síðsta kjörtímabili. Dagur segir að lagt hafi verið upp með að læra af reynslunni, bæði af eldra skipulagi og hruninu, og ná betri árangri í sameiginlegum verkefnum.

Ekki er um að ræða eiginlegt svæðisskipulag, heldur stefnumótun um framtíðarsýn næstu 25 árin.

„Það eru engu að síður lagðar býsna skýrar línur um það hvernig byggðin á að þróast,“ segir Dagur um skipulagið. „Hún á að þróast inn á við, hún á að vera í þágu lífsgæða íbúanna og leysa samgöngur í auknum mæli með almenningssamgöngum með aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi þannig að það bætist ekki öll viðbótarbyggðin í sama mæli inn á stofnbrautirnar og stífli þær. Ein af grunnforsendum í skipulaginu er að til 2040 muni bætast við um 70 þúsund manns inn á höfuðborgarsvæðið og stóra verkefnið í skipulaginu er að koma því fólki fyrir þannig að það bitni ekki á íbúunum eða innviðunum.“

Skipulagið gerir ráð fyrir þéttingu byggðar og að staðinn verði vörður um ósnert svæði umhverfis höfuðborgina og græn svæði. Skipulagið felur í sér öfluga vatns- og náttúruverndaráætlun, að sögn Dags. „Það er lögð mikil áhersla á sjálfbærni í öllum skilningi, og hagkvæmni, þannig að það verði ekki of dýrt að búa á höfuðborgarsvæðinu. Þannig eru hagsmunir heimilanna þarna mjög framarlega,“ segir hann.

Hefur óskað eftir formlegum viðræðum við ríkið

Varðandi svokallaða Borgarlínu, sem er eitt þeirra verkefna sem áætlunin tekur til og mun eflaust vekja einna mesta athygli, segir Dagur um að ræða kerfi annað hvort hraðvagna eða léttlesta. Hann segir undirbúning standa yfir um leiðir fyrir þetta nýja kerfi en þar verði annars vegar tekið mið af því hvar flestir búa sem eru líklegir til að nýta sér kerfið og hins vegar hvar byggð muni þróast.

Aðspurður segir Dagur Borgarlínuna kalla á miklar framkvæmdir og umtalsverða fjárfestingu. „Og þetta kallar á mjög náið samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við ríkið, og ég hef þegar skrifað innanríkisráðherra bréf og óskað eftir formlegum viðræðum um samstarf um að byggja upp öflugar almenningssamgöngur á þessum nótum á grundvelli nýja svæðisskipulagsins.“

Dagur segir að búið sé að gera kostnaðarmat fyrir hraðvagnakerfi, léttlestarkerfi og gömlu leiðina, þ.e. að fjölga akreinum og mislægum gatnamótum.

„Síðastnefnda leiðin, þ.e.a.s. að nota gömlu aðferðirnar er bæði dýrust og eykur tafatímann í umferðinni mest. Þetta eru hátt í 200 milljarðar sem gamla leiðin myndi kosta. Léttlestarkerfið gæti kostað allt að 90 milljarða en hraðvagnakerfi á bilinu 40-50 milljarða. Og nú viljum við bara ræða við ríkið bestu leiðir í þessu útfrá hagsmunum fólksins sem býr hér á svæðinu.“

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar gert samkomulag við Vegagerðina um samráð og samstarf um útfærslu Borgarlínunnar, en tímarammi framkvæmda er háður fjármögnun.

Tímamótaskipulag

„Þetta er búin að vera  heilmikil umræða og sveitarfélögin eru að sumu leyti ólík en ég held að þau hafi samt öll náð saman um þessa framtíðarsýn vegna þess að aðrar leiðir eru bæði dýrar og verri fyrir umhverfið og í raun fyrir framtíðina á svæðinu,“ segir Dagur spurður að því hvort ágreiningur hafi verið uppi um einhver ákveðin atriði.

„Við komumst ekki að þessari niðurstöðu fyrr en eftir mjög mikla vinnu og ítarlegar greiningar á mismunandi leiðum sem hægt er að fara. Þannig að það eru í raun svolítil tímamót í því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standi saman um svona skýra framtíðarsýn og áætlun til 2040.“

Svæðisskipulagið gerir ráð fyrir að á fjögurra ára fresti sé lögð fram þróunaráætlun um forgangsröðun og Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2015-2018 liggur þegar fyrir.

- En ríkir það mikil sátt um skipulagið að það sé líklegt til að standa af sér pólitískar hræringar í sveitarfélögunum?

„Ég vona það,“ svarar borgarstjóri. „Alla vegna þá stóð það af sér síðustu sveitarstjórnarkosningar. Það lá fyrir í drögum í lok síðasta kjörtímabils og fór tiltölulega lítið breytt í auglýsingu á nýja kjörtímabilinu, eftir að nýtt fólk haðfi farið aftur yfir málið. En niðurstaðan var sú að sveitarstjórnirnar voru tilbúnar til að gera þetta að sínu og staðfesta þetta. Og ég ætla að halda því fram að það sé vegna þess að undirbúningsvinnan var mjög góð. Þetta er ekki byggt á einhverjum skoðunum heldur greiningu á núverandi stöðu, á mismunandi leiðum til framtíðar og mati á því hvað er best útfrá heildarhagsmunum. Og það er svo mikilvægt í þessu.“

Frétt mbl.is: Kjarnarnir tengdir með Borgarlínu

Höfuðborgarsvæðið 2040.
Höfuðborgarsvæðið 2040. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhendir Degi, sem er stjórnarformaður …
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhendir Degi, sem er stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, staðfestingu á samþykki ráðuneytisins á nýrri vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ófá skjöl biðu undirritunar, bæði vegna skipulagsins og vatnsverndarinnar.
Ófá skjöl biðu undirritunar, bæði vegna skipulagsins og vatnsverndarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert