Mest hefur fækkað í hópi bótaþega með grunnskólamenntun frá því árið 2009 þegar atvinnuleysi var mest í kjölfar efnahagshruns.
Tæplega 7.800 atvinnulausir voru með grunnskólamenntun árið 2009 þegar rúmlega 15.100 manns voru á skrá hjá Vinnumálastofnun. Síðan þá hefur grunnskólamenntuðum fækkað um tæplega fimm þúsund manns á skránni.
Að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá Vinnumálastofnun, helgast þetta af uppgangi í ferðaþjónustu. „Nánast öll störf sem urðu til 2013 og að hluta árið 2014 voru í ferðaþjónustu sem er mannaflsfrek grein sem ekki krefst menntunar nema að litlu leyti,“ segir Karl í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.