„Þetta er mjög alvarlegt“

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði
Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn

„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt enda erum við að tala um fjölmennan vinnustað þar sem margir starfsmenn búa í Hafnarfirði,“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, um þau áform lyfjafyrirtækisins Actavis að flytja lyfjaframleiðslu úr landi eftir tvö ár. Um 300 störf eru í verksmiðju fyrirtækisins í bænum og þar býr nærri helmingur starfsmanna.

Frétt mbl.is: Sagt frá hópuppsögnum í morgun

Haraldur segir engan aðdraganda hafa verið að málinu. „Ég heyrði fyrst af þessu í gær. Við höfum óskað eftir því að forsvarsmenn Actavis komi á fund bæjarráðs á fimmtudaginn þar sem þeir munu gera okkur frekari grein fyrir stöðunni.“

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs, segist í samtali við Morgunblaðið í dag vonast tilþess að einhver sjái sér hag í því að taka aðstöðuna yfir og nýta þekkingu starfsfólksins.

Actavis hyggst flytja starfsemi úr landi.
Actavis hyggst flytja starfsemi úr landi. mbl.is/Rósa Braga

Frétt mbl.is: Áfall fyrir Hafnarfjörð

Haraldur segir áætlanir Actavis ekki liggja skýrt fyrir. „Nú vitum við ekki hver plönin eru, en þarna er allavega stórt húsnæði sem við vonum að muni væntanlega hýsa einhverja starfsemi,“ segir Haraldur.

Fyrst Fiskistofa, nú Actavis

Aðspurður segir hann undanfarna mánuði vissulega erfiða fyrir bæinn, fyrst Fiskistofa og nú Actavis. „Þessi mál eru stór og þetta skiptir allt máli. Svona umsvif kalla á ákveðna þjónustu og þegar dregur úr henni hefur það margfeldisáhrif.“

Fiskistofa verður flutt til Akureyrar, en þangað verða allir nýir …
Fiskistofa verður flutt til Akureyrar, en þangað verða allir nýir starfsmenn ráðnir. Núverandi starfsmenn þurfa þó ekki að flytja sig um set, utan fiskistofustjóra. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir bæinn hins vegar alltaf í sókn í atvinnuuppbyggingu, en unnið er að stofnun sérstakrar markaðsstofu. „Markmiðið er að laða fleiri fyrirtæki inn og bæta þjónustu Við viljum styrkja atvinnulífið eins vel og við getum,“ segir Haraldur. Hann vonast til þess að störf markaðsstofunnar verði hafin innan hálfs árs, en starfsmaður vinnur nú að stofnun hennar. Hann segir Hafnfirðinga hvergi bangna þrátt fyrir stöðuna í atvinnumálum.

„Við látum þetta ekki buga okkur þótt erfitt sé og takast verður á við þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert