Uppi eru áhyggjur um það innan verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands að styttra nám til stúdentsprófs leiði til þess að erfiðara verði fyrir nemendur að öðlast nægan undirbúning fyrir háskólanám í verkfræði og raunvísindum. Þetta kemur fram í ályktun deildarráðs raunvísindadeildar HÍ sem samþykkt var á fundi ráðsins þann 4. júní.
Þar skorar deildarráðið á yfirvöld menntamála og skólastjórnendur að leita allra leiða til að tryggja að stúdentspróf í nýju umhverfi veiti enn góðan undirbúning fyrir háskólanám í verkfræði og náttúruvísindum.
„Vandséð er hvernig á að viðhalda eðlis- og efnafræðikennslu í þeirri mynd sem hún er nú ef af styttingu verður,“ segir í ályktuninni. Þá kemur fram að afleiðingarnar yrðu skertir möguleikar í námsvali, þar sem inntökuskilyrði í grunnnám við deildir á verkfræði- og náttúruvísindasviði haldast óbreytt.
„Auk þess má minna á að með samanburði fjölda námsdaga í þriggja ára framhaldsskólanámi á Norðurlöndunum virðist fyrirhugaður fjöldi námsdaga hérlendis minni sem nemur allt að tæpri önn þar sem munurinn er mestur.“
Deildarráðið áréttar mikilvægi þess að tryggja góðan undirbúning í raungreinum fyrir háskólanám við fyrirhugaða styttingu framhaldsskólanáms. Góður undirbúningur í stærðfræði, sem er undirstöðugrein í öllu háskólanámi í verkfræði og náttúruvísindum, er sérstaklega mikilvægur. Við Háskóla Íslands er nú miðað við að nýnemar í þessum greinum hafi að baki sjö til átta anna nám í stærðfræði.
Í ályktuninni kemur fram að eðlisfræðikennsla í framhaldsskólum hefjist yfirleitt ekki fyrr en ákveðinn grunnur hefur verið lagður í stærðfræði. „Sýnt er að eitthvað verður undan að láta, annaðhvort byrja nemendur eðlisfræðinám sitt í framhaldsskóla án tilskilins grunns, eða hluta eðlisfræðikennslunnar verður fórnað. Nú þegar hefur niðurskurður í mörgum skólum leitt til þess að það er vonlítið fyrir nemendur þaðan að spreyta sig á verkfræði- eða náttúruvísindagreinum.“
Þá sé mikilvægt að framhaldsskólanemendur fái á öllum stigum skýrar leiðbeiningar um hvernig þeir eigi að haga námi sínu til að búa sig undir háskólanám. Jafnframt styður deildarráð raunvísindadeildar viðleitni þeirra framhaldsskóla sem vilja halda áfram að bjóða fjögurra ára nám til stúdentsprófs, meðal annars með áherslu á kennslu raungreina. „Mikilvægt er að yfirvöld átti sig á því að kröfur í háskóla miðast ekki eingöngu við hvað nemendur geta gert eftir framhaldsskólanám, heldur hvað nemendur þurfa að standa skil á í lok BS-náms. Þetta sprettur af kröfum atvinnulífsins og hins alþjóðlega akademíska umhverfis t.d. við inntöku í framhaldsnám.“