„Fólk má ekki gefast upp“

Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli í kvöld.
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er gríðarlega mikil óánægja með störf ríkisstjórnarinnar að mörgu leyti. Hægt er að benda á lögin sem voru sett á BHM og hjúkrunarfræðinga og heilbrigðiskerfið er alveg á heljarþröm. Einnig er mikil óánægja með makrílafrumvarpið. Íbúðaverð hækkar, leiguverð hækkar og matarverð hækkar og ástand margra í landinu er ekki gott,“ segir Sara Oskarsson, einn skipuleggjandi mótmæla sem boðað hefur verið til í kvöld, í samtali við mbl.is. 

Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli í kvöld klukkan 19.40 þegar eldhúsdagsumræður á Alþingi fara fram. Í boðun mótmælanna er fólk hvatt til að mæta og láta vel í sér heyra. Tæplega 400 manns hafa boðað komu sína, sem eru fáir miðað við mótmælin 17. júní. „Ég held að það sé komin mótmælaþreyta í fólk, það getur gerst þegar stutt er á milli mótmæla.“

Aðspurð segist Sara ekki viss um að ráðamenn hlusti á raddir mótmælenda. „Hins vegar er ég 100% viss um að þau skili því að fólk vakni smáum saman og hugarfar almennings breytist. Almenningur verður þá síður ginnkeyptur gagnvart bullinu sem vellur upp úr sumum ráðamönnum. Hvort sem það er þessi ríkisstjórn, stjórnin á undan eða næsta á eftir þá er mikilvægast að fólk sé með gagnrýna hugsun. Það á ekki að segja fólki hvenær það má mótmæla, hvort sem það er á lýðveldisdaginn eða fimmtudegi klukkan fimm. Þetta snýst líka um hugarfarið að fólk megi láta í sér heyra þegar hlutirnir eru ekki í lagi, líka gagnvart vinnuveitendum.“

Sara segir mótmælin vera langtímaverkefni. „Þetta getur tekið 10 ár, 20 ár en það skiptir ekki máli, hér þarf að verða hugarfarsbreyting. Við tökum tvö skref áfram og eitt aftur á bak. Svona mótmælaöldur og grasrótarhreyfingar hafa komið áður en fólk hefur alltaf gefist upp. Það má ekki gerast núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert