Geta ekki útilokað gos

Eins og hér má sjá hafa marg­ir skjálft­ar mælst á …
Eins og hér má sjá hafa marg­ir skjálft­ar mælst á svæðinu. mynd/Veður­stofa Íslands

„Við getum ekki útilokað að það komi upp kvika og það verði smá gos,“ segir Kristín Jónsdóttir,  fag­stjóri jarðskjálfta­vár hjá Veður­stofu Íslands, um jarðskjálftahrinu sem staðið hefur yfir á Reykjanesskaga frá því í gærkvöldi. 

Skjálfta­hrin­an hófst um klukk­an 21 í gær­kvöldi og stend­ur enn. Stærsti skjálft­inn mæld­ist 5 að stærð klukk­an 02:25 í nótt en alls hafa á þriðja hundrað skjálft­ar mælst síðan hrin­an hófst. Kristín segir hrinur sem þessa ekki óalgengar á þessu svæði, þar sem flekaskil eru staðsett þar.

Ekki merki um að gos sé að hefjast

„Plöturnar eru að færast frá hvor annarri sem gerist yfirleitt smám saman og stundum í sprettum eins og gerist núna. Það er að koma sprettur í þessar færslur og plöturnar eru að færast hraðar frá hvor annarri á þessum stað,“ útskýrir Kristín, en svæðið er um 15 kílómetra suðvestan við Eldey.

Kristín segir það að öllum líkindum vera kvika í skorpunni sem keyri þetta ferli áfram, en ekki hafi þó sést merki um það að gos sé að hefjast. „En það er alveg möguleiki og við fylgjumst með því,“ segir hún en bætir við að hrinur sem þessar komi upp á nánast hverju ári, og líklegast sé að hún muni deyja út eins og raunin hafi verið í þeim hrinum. 

„Það sem við höfum séð síðustu ár er að þá kemur svona virkni og svo deyr hún bara út. Miðað við það finnst okkur líklegast að þetta deyi út, en það er ekki óvanalegt að sjá svona hrinur á rekbeltinu. Við sjáum það nánast á hverju ári þarna úti á hrygg,“ segir Kristín.

Tengist ekki aukinni skjálftavirkni á Reykjanesskaga

Í tilkynningu Almannavarna í síðasta mánuði kom fram kom að auk­in jarðskjálfta­virkni hafi verið á Reykja­nesskag­an­um und­an­farið en þar reið meðal ann­ars skjálfti af stærð 4 yfir í lok maí. Kom þar fram að mæl­ing­ar á jarðskorpu­hreyf­ing­um síðustu árin gefi vís­bend­ing­ar um að á þessu svæði sé mögu­lega tals­verð spenna sem geti losnað út í stærri skjálft­um. 

Kristín segir þessa spennu ekki tengjast skjálftahrinunni, þar sem um annars konar virkni sé að ræða. „Þetta tengist ekki beint. Á Suðurlandi og Reykjanesskaganum er það sem við köllum sniðgengi. Það eru færslur norðan við þetta sniðgengi til vesturs og sunnan við eru færslur til austurs svo þar er svæði sem er í raun að snúast upp á,“ segir hún.

Á þriðja hundrað skjálftar mælst

Á þriðja hundrað skjálft­ar hafa mælst síðan hrin­an hófst í gærkvöldi. Sam­felld virkni var frá klukk­an 21 til miðnætt­is en eft­ir það hef­ur hún verið í kviðum með allt að tveggja til þriggja klukku­tíma hlé­um á milli. Síðasta kviðan var um klukk­an 7 í morg­un og síðan hef­ur verið ró­legt.

Stærsti skjálft­inn fannst víða á Reykja­nesskaga, á Höfuðborg­ar­svæðinu, á Akra­nesi og einnig barst Veður­stof­unni til­kynn­ing frá skipi sem statt var um 10 kíló­metr­um frá upp­tök­um skjálft­ans.

Fyrri fréttir mbl.is:

Stærsti skjálftinn 5 að stærð

Tvö hundruð skjálft­ar mælst

Jarðskjálft­ar finn­ast víða

Spennan mun losna úr læðingi

Auk­in jarðskjálfta­virkni á Reykja­nesskaga 

Skjálfti mældist í Kleifarvatni í maí.
Skjálfti mældist í Kleifarvatni í maí. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka