Geta ekki útilokað gos

Eins og hér má sjá hafa marg­ir skjálft­ar mælst á …
Eins og hér má sjá hafa marg­ir skjálft­ar mælst á svæðinu. mynd/Veður­stofa Íslands

„Við get­um ekki úti­lokað að það komi upp kvika og það verði smá gos,“ seg­ir Krist­ín Jóns­dótt­ir,  fag­stjóri jarðskjálfta­vár hjá Veður­stofu Íslands, um jarðskjálfta­hrinu sem staðið hef­ur yfir á Reykja­nesskaga frá því í gær­kvöldi. 

Skjálfta­hrin­an hófst um klukk­an 21 í gær­kvöldi og stend­ur enn. Stærsti skjálft­inn mæld­ist 5 að stærð klukk­an 02:25 í nótt en alls hafa á þriðja hundrað skjálft­ar mælst síðan hrin­an hófst. Krist­ín seg­ir hrin­ur sem þessa ekki óal­geng­ar á þessu svæði, þar sem fleka­skil eru staðsett þar.

Ekki merki um að gos sé að hefjast

„Plöt­urn­ar eru að fær­ast frá hvor ann­arri sem ger­ist yf­ir­leitt smám sam­an og stund­um í sprett­um eins og ger­ist núna. Það er að koma sprett­ur í þess­ar færsl­ur og plöt­urn­ar eru að fær­ast hraðar frá hvor ann­arri á þess­um stað,“ út­skýr­ir Krist­ín, en svæðið er um 15 kíló­metra suðvest­an við Eld­ey.

Krist­ín seg­ir það að öll­um lík­ind­um vera kvika í skorp­unni sem keyri þetta ferli áfram, en ekki hafi þó sést merki um það að gos sé að hefjast. „En það er al­veg mögu­leiki og við fylgj­umst með því,“ seg­ir hún en bæt­ir við að hrin­ur sem þess­ar komi upp á nán­ast hverju ári, og lík­leg­ast sé að hún muni deyja út eins og raun­in hafi verið í þeim hrin­um. 

„Það sem við höf­um séð síðustu ár er að þá kem­ur svona virkni og svo deyr hún bara út. Miðað við það finnst okk­ur lík­leg­ast að þetta deyi út, en það er ekki óvana­legt að sjá svona hrin­ur á rek­belt­inu. Við sjá­um það nán­ast á hverju ári þarna úti á hrygg,“ seg­ir Krist­ín.

Teng­ist ekki auk­inni skjálfta­virkni á Reykja­nesskaga

Í til­kynn­ingu Al­manna­varna í síðasta mánuði kom fram kom að auk­in jarðskjálfta­virkni hafi verið á Reykja­nesskag­an­um und­an­farið en þar reið meðal ann­ars skjálfti af stærð 4 yfir í lok maí. Kom þar fram að mæl­ing­ar á jarðskorpu­hreyf­ing­um síðustu árin gefi vís­bend­ing­ar um að á þessu svæði sé mögu­lega tals­verð spenna sem geti losnað út í stærri skjálft­um. 

Krist­ín seg­ir þessa spennu ekki tengj­ast skjálfta­hrin­unni, þar sem um ann­ars kon­ar virkni sé að ræða. „Þetta teng­ist ekki beint. Á Suður­landi og Reykja­nesskag­an­um er það sem við köll­um sniðgengi. Það eru færsl­ur norðan við þetta sniðgengi til vest­urs og sunn­an við eru færsl­ur til aust­urs svo þar er svæði sem er í raun að snú­ast upp á,“ seg­ir hún.

Á þriðja hundrað skjálft­ar mælst

Á þriðja hundrað skjálft­ar hafa mælst síðan hrin­an hófst í gær­kvöldi. Sam­felld virkni var frá klukk­an 21 til miðnætt­is en eft­ir það hef­ur hún verið í kviðum með allt að tveggja til þriggja klukku­tíma hlé­um á milli. Síðasta kviðan var um klukk­an 7 í morg­un og síðan hef­ur verið ró­legt.

Stærsti skjálft­inn fannst víða á Reykja­nesskaga, á Höfuðborg­ar­svæðinu, á Akra­nesi og einnig barst Veður­stof­unni til­kynn­ing frá skipi sem statt var um 10 kíló­metr­um frá upp­tök­um skjálft­ans.

Fyrri frétt­ir mbl.is:

Stærsti skjálft­inn 5 að stærð

Tvö hundruð skjálft­ar mælst

Jarðskjálft­ar finn­ast víða

Spenn­an mun losna úr læðingi

Auk­in jarðskjálfta­virkni á Reykja­nesskaga 

Skjálfti mældist í Kleifarvatni í maí.
Skjálfti mæld­ist í Kleif­ar­vatni í maí. mbl.is/​RAX
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert