Píratar mælast með 32% fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup og eru sá flokkur sem nýtur mests stuðnings meðal þjóðarinnar. Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um fimm prósentustig á milli mánaða.
Píratar tapa tveimur prósentustigum frá síðasta mánuði en stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist úr 31% í 36%, að því er fram kemur á vef RÚV.
Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærstur með 24,5% fylgi og bætir við sig tveimur prósentustigum. Framsóknarflokkur nýtur stuðnings 11,3% þjóðarinnar en Samfylkingin mælist með 11,4%.
10,3% segjast styðja Vinstri græna og 6,4% Bjarta framtíð.
Úrtak könnunarinnar var 8.460 manns og þátttökuhlutfallið 57%. Af svarendum tóku 11% ekki afstöðu og rúmlega 10% sögðust myndu skila auðu eða sleppa því að kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag.