Veifaði forboðnu blaði í þingsal

Mynd sem birtist í 2. tbl. Spegilisins árið 1983. Lögbann …
Mynd sem birtist í 2. tbl. Spegilisins árið 1983. Lögbann var sett á blaðið vegna guðlasts.

Varaþingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson veifaði eintaki af tölublaði skopritsins Spegilsins sem gert var upptækt vegna guðlasts árið 1983 og enn er ekki hægt að nálgast hjá Landsbókasafni í ræðustóli Alþingis í dag. Hann sagðist líklega ekki mega eiga blaðið fyrr en frumvarp um afnám laga um guðlast verður að lögum.

Greidd voru atkvæði um tillögu Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um að afnema ákvæði um guðlast úr almennum hegningarlögum á Alþingi í dag. Andrés Ingi, sem er varaþingmaður Vinstri grænna, kom í pontu til að lýsa ánægju sinni með frumvarpið og hann hlakkaði til að setjast niður með Úlfari Þormóðssyni, rithöfundi og ritstjóra Spegilsins, sem var dæmdur fyrir guðlast á sínum tíma.

„Ég hlakka mikið til þess að geta sest með félaga Úlfari Þormóðssyni sem var á sínum tíma dæmdur fyrir þetta forboðna blað sem gerði grín að því að fermingar og fermingargjafir væru kannski óþarflega dýrar og það þótti nógu mikið guðlast til að þetta blað væri bannfært. Væntanlega má ég ekki eiga þetta og væntanlega má ekki sýna þetta í sjónvarpi eða hvað það er fyrr en þetta ágæta frumvarp verður að lögum,“ sagði Andrés Ingi sem hélt á eintaki af blaðinu.

Frumvarpinu var vísað mótatkvæðalaust til þriðju umræðu en Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, steig þó í pontu og sagði frumvarpið hluta af afsiðun þjóðarinnar. Sagðist hann engu að síður ætla að sitja hjá við afgreiðslu þess en sagði við aðra þingmenn: „Verði ykkur að góðu“.

„Aðgangur ekki leyfður“

Þó að þrjátíu og tvö ár séu liðin frá því að skopið í Speglinum hafi farið fyrir brjóstið á starfsmönnum kirkjunnar er aðgangur að því enn lokaður. Þegar reynt að er að opna 2. tölublað Spegilsins frá 1983 á vefnum tímarit.is koma upp skilaboðin: „Aðgangur ekki leyfður“ og er vísað til lögbanns Hæstaréttar frá sama ári. Eintak af blaðinu er þó varðveitt í sérstakri geymslu sem örfáir hafa aðgang að.

Í viðtali við mbl.is í janúar sagði Úlfar að lög gegn guðlasti væru hættuleg og að hann biði enn afsökunarbeiðni frá kirkjunni vegna lögbannsins sem sett var á Spegilinn.

Úlfar Þormóðsson
Úlfar Þormóðsson Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert