Guðlast ekki lengur glæpur

Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn …
Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir, þingmenn Pírata. mbl.is

Alþingi hefur samþykkt að afnema ákvæði um guðlast úr hegningarlögum. Þingmenn Pírata, sem lögðu frumvarpið fram, komu hver af öðrum í ræðustól Alþingis á meðan atkvæðagreiðslan stóð yfir og sögðu: „Ég er Charlie Hebdo.“

Aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn því að afnema bann við guðlasti úr hegningarlögum, Vilhjálmur Bjarnason frá Sjálfstæðisflokknum. Auk hans sátu hjá þau Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki, og Vigdís Hauksdóttir og Þorsteinn Sæmundsson úr Framsóknarflokknum.

Á vefsíðu Pírata kemur fram að þeir hafi lagt frumvarpið fram í kjölfar mannskæðrar árásar á ritstjórn tímaritsins Charlie Hebdo í París, en útgáfan hafi gert stólpagrín að Múhameð Spámanni.

„Alþingi Íslendinga hefur nú komið þeim mikilvægu skilaboðum á framfæri að frelsið verði ekki beygt fyrir mannskæðum árásum,“ segir þar.

Í tilefni af samþykkt frumvarpsins birta Píratar eintak af 2. tölublaði Spegilsins frá 1983, sem lögbann var lagt á vegna guðlasts sem talið var að í því væri að finna. Ritstjóri blaðsins, Úlfar Þormóðsson, var jafnframt dæmdur til að greiða sekt fyrir guðlastið.

Samkvæmt upplýsingum ríkissaksóknara stendur lögbann sem Hæstiréttur setti á blaðið hins vegar enn þrátt fyrir að guðlastsákvæðið hafi verið fjarlægt úr hegningarlögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka