Elva Rósa Skúladóttir taldi um 75 bit eftir lúsmý á dóttur sinni Önnu Lísu Hallsdóttur eftir að hún kom heim úr sumarbúðum í Kjósinni síðastliðinn laugardag. Hún segist ekki hafa orðið vör við bitin fyrr en á þriðjudag og því gæti hún einnig hafa fengið þau heima í Mosfellsbænum. „Hún svaf með opinn glugga sem snýr í norður,“ segir Elva en Mosfellingar hafa orðið varir við að ef glugginn snýr í norður eru árásir frá lúsmýinu tíðari.
Anna Lísa vaknaði svo í vikunni með fleiri bit sem hún hefur þá fengið á heimili sínu í Mosfellsbæ. Elva segir bitin afar mörg og Önnu klæi í þau. Þær mæðgur fengu leiðbeiningar um að setja Mildison-krem og kláðastillandi krem á bitin ásamt því að fylgjast vel með hvort það kæmi hiti eða sýking í þau. Elva telur bitin ekki hafa hjaðnað.
Þá vaknaði móðir Elvu Rósar, sem býr í Vogahverfinu, einnig öll útbitin á dögunum. „Þetta er greinilega komið víða,“ segir Elva.
Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að lúsmý er af ætt örsmárra mýflugna sem langflestar sjúga blóð úr öðrum dýrum, allt frá skordýrum til mannskepna. Mýið tilheyrir ættinni ceratopogonidae sem hýsir fjölda tegunda um allan heim. Ættin hefur hlotið litla athygli vegna þess hve óaðgengileg hún er.
Í Skotlandi finnast sextán tegundir sem leggjast á fólk og því þarf að leggjast í frekari rannsóknarvinnu hér á landi. Tegundir lúsmýs eru sumar illa liðnar fyrir að bera sjúkdóma í húsdýr. Engin skosku tegundanna er þekkt fyrir að sýkja menn en atlögurnar geta verið ljótar. Oft verða menn ekki varir við agnarsmá kvikindin þegar þau stinga og vita því ekki hvað gerst hefur þegar skyndilegur roði, kláði og bólgur í húð blossa upp.
Flugurnar geta lagt til atlögu margar saman, tugir eða hundruð, að nóttu til eða degi, utan húss sem innan, og skilið eftir sig ljót bit. Þær verða til við ýmsar aðstæður, í vatni, blautum og rökum jarðvegi eða í skíthaugum við gripahús.
Fyrri fréttir mbl.is um málið: