Rithöfundurinn og fyrrverandi ritstjóri blaðsins Titanic, Oliver Maria Schmitt, vandar Íslandi ekki kveðjurnar í kafla nýrrar bókar. Hann segir veðurfarið hryllilegt, Íslendinga hrokafulla og matinn, ef mat skyldi kalla, vondan.
Bók Schmitts heitir „Ich bin dann mal Ertugrul. Traumreisen durch die Hölle und zurück“ (Ég er Ertugrul. Draumaferðir til helvítis og tilbaka) og þar er heill kafli um Ísland. Að sögn Schmitts er Ísland daunill og gufumettuð eyja þar sem ferðamenn eru féflettir. Laugavegurinn er fáranlega lítil gata, þakin tómum flöskum og saur, og þar hópast saman ungir alkóhólistar sem detta hver um annan.
Matarmenningin, að mati Schmitts, er ekki til og samanstendur af úldnum hákarli og vondum pylsum og náttúra landsins er dauðari en þýska alþýðulýðveldið. Schmitt er hins vegar þekktur háðfugl í Þýskalandi og því má ætla að dapurlega lýsingu hans á landi og þjóð megi ekki taka fullalvarlega.
Kaflinn um Ísland úr bókinni var nýlega birtur í dagblaðinu Die Welt og má lesa hann á þýsku HÉR.