Ef þröskuldur fyrir því að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu er lágur og þátttaka reynist svo lítil er það á engan hátt skýrari eða lýðræðislegri niðurstaða en sú sem fæst með fulltrúalýðræði. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í svari við fyrirspurn um breytingar á stjórnarskrá.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurðu fjármálaráðherra út í afstöðu hans til endurskoðun á stjórnarskránni, sérstaklega með tilliti til ákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslur, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Bjarni sagði að ef að tilteknu hlutfalli atkvæðabærra manna yrði tryggður réttur til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslna þá teldi hann minni ástæðu til að gefa þriðjungi þingheims slíkan rétt eða að halda í ákvæði um málskotsrétt forseta. Árni Páll tók undir með Bjarna um málskotsrétt forseta enda benti á að ákvæði um rétt minnihluta þingmanna til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur tryggði það að meirihlutinn á þingi reyndi að ná meiri samstöðu um mál og undirbyggi þau betur.
Birgitta spurði Bjarna út í hversu hátt hlutfall þjóðarinnar hann teldi að þyrfti til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Svaraði Bjarni því til að þátttaka í atkvæðagreiðslunni skipti máli. Þess vegna hafi hann verið hallur undir það að hafa lágmarksþröskuld fyrir því að hægt sé að krefjast slíkrar atkvæðagreiðslu nær 20% en 5%.
Hættan væri sú að ef byggt væri á 5% reglu og svo væri þátttaka lök þá væri sú niðurstaða á engan hátt skýrari eða lýðræðislegri en sú sem fengist með fulltrúalýðræði. Sagðist hann ennfremur ekki telja að þörf væri á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem Birgitta hafði einnig spurt hann um.