Sigmundur ánægður með samstöðuna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Það er ákaflega ánægjulegt að sjá hversu vel þingmenn allra flokka taka þessu máli, og sumir jafnvel málefnalega,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaudsson forsætisráðherra þegar gengið var til atkvæða um frumvarp um stöðuleikaskatt að lokinni annarri umræðu.

Almenn samstaða er á Alþingi til að afgreiða málið, en það verður nú gert síðar í dag þegar málið gengur til þriðju umræðu og í framhaldinu til lokaatkvæðagreiðslu.

Sigmundur sagði ekkert hæft í því að ríkisstjórnin væri búin að semja við einhverja á bak við tjöldin í tengslum við málið. „Það liggur einfaldlega fyrir að hér er verið að samþykkja skattlagningu og menn þurfa, ef þeir vilja komast hjá þeirri skattlagningu, að uppfylla stöðugleikaskilyrði sem eru miklu strangari heldur en nokkur skilyrði sem áður hafa verið uppi fyrir því að fá hér nauðasamninga,“ sagði Sigmundur á Alþingi í dag.

Hann sagði að aðalatriði væri að hér væri þingið að samþykkja leið til að leysa stærsta efnahagslega vandamál sem þjóðin hafi staðið frammi fyrir undanfarin ár. Málið hefði vakið athygli víða um lönd. „Enda með mjög afdráttarlausum hætti verið að leysa mál sem virtist mörgum óleysanlegt fyrir síðustu kosningar,“ sagði Sigmundur.

Heildstæð áætlun um það hvernig eigi að leysa vandann

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þakkaði efnahags- og viðskiptanefnd fyrir vel unnin störf og samstöðu á þinginu. „Það er rétt sem hér hefur komið fram, að það var mikið lagt á þingið að fara fram á að svona stórt mál kæmist í gegnum nefndastarf og lokið yrði við þrjár umræður á skömmum tíma eins og er að takast,“ sagði hann. 

Varðandi ráðstöfun þeirra fjármuna sem muni birtast annars vegar í formi skattgreiðslna eða stöðuleikaframlags, sagði Bjarni skýrt að það beri að ráðstafa fjármagninu til að lækka skuldir ríkissjóðs og koma í veg fyrir þensluáhrif. 

„Það eru engir samningar við einn eða neinn á bak við tjöldin. Þetta er einfaldlega skýrt mál og það mun áfram verða unnið að því að greiða fyrir leið nauðasamninga með stöðugleikaskilyrðum. Verði þau ekki uppfyllt þá fellur skatturinn í lok þessa árs á viðkomandi slitabú. Aðalatriðið málsins er það að hér kemur heildstæð áætlun um það hvernig eigi að leysa vandann,“ sagði Bjarni og bætti við að það væri mikilvægt fyrir íslensku þjóðina að finna fyrir þeirri samstöðu sem væri á þinginu varðandi þetta mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert