Spyr um samviskufrelsi presta

Regnbogafáninn.
Regnbogafáninn. AFP

Varaþingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til innanríkisráðherra um hvaða reglur gildi innan þjóðkirkjunnar sem heimili prestum að neita samkynhneigðum um þjónustu. Kirkjuþing unga fólksins kallaði í vor eftir afnámi slíkra reglna.

Ungt fólk í þjóðkirkjunni samþykkti á þingi sínu í maí ályktun um að  reglur þær sem nú eru í gildi um samviskufrelsi presta sem heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar verði afnumdar, enda stríði þær gegn kenningu kirkjunnar um jafnrétti og gegn lögum landsins sem segja að ekki megi mismuna fólki á grundvelli kyns, kynþáttar, trúar, stéttar né kynhneigðar.

Nú hefur Andrés Ingi, sem er varaþingmaður Vinstri grænna, spurt innanríkisráðherra út í þessar reglur í skriflegri fyrirspurn sem hann hefur lagt fram á Alþingi. Óskar hann svara um á hvaða heimild slíkar reglur byggi og hvort að ráðherra sé kunnugt um tilfelli þar sem samkynja pörum hafi verið neitað um þjónustu starfsmanna kirkjunnar á grundvelli meints samviskufrelsis þeirra.

Einnig spyr hann hvort að innanríkisráðherra telji það samrýmast skyldum presta sem opinberra starfsmanna að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar.

Fyrirspurn Andrésar Inga um samviskufrelsi presta

Ályktun Kirkjuþings unga fólksins um afnám samviskufrelsisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert