„Mávarnir voru mjög frekir til matarins og voru að reyna að stela brauðinu,“ segir Guðmundur Stefán Erlingsson sem fór ásamt dóttur sinni Veru Rún Guðmundsdóttur á Reykjavíkurtjörn í gær til að gefa öndunum brauð. Það var svo einn mávanna sem greip brauðið á lofti og flaug í burtu með félaga sína á eftir sér. Á því augnabliki náði Guðmundur meðfylgjandi mynd.
Vera Rún sem er nýorðin þriggja ára gömul var afar áhugasöm um fuglana og fylgdist agndofa með. Þau feðgin hafa verið dugleg við að fara á Tjörnina til að gefa fuglunum en mávarnir eru oft afar æstir og grimmir.