„Mig langaði að prófa að taka þátt og sjá hvort ég gæti unnið. Fólk var búið að hvetja mig til þess og ég ákvað að slá til,“ segir Laufey Heiða Reynisdóttir í samtali við mbl.is. Hún er 17 ára og var í dag valinn rauðhærðasti Íslendingurinn árið 2015 á Írskum dögum á Akranesi.
Hún fær að að launum ferð til Írlands fyrir tvo með Gaman ferðum. Efnilegasti rauðhærði Íslendingurinn var einnig valinn og var það Vigdís Birna sem hlaut þann titil og og fékk hún 10 þúsund króna gjafabréf frá Íslandsbanka. Alls voru 29 keppendur skráðir til leiks.
„Ég gerði bara ferð til að taka þátt en ég er með vinkonum mínum í bústað í Svignaskarði.“ Blaðamaður spyr þá hvort hún sé eins og atvinnumenn, sem taka bara þátt til þess að vinna. „Já, ég geri það,“ segir Laufey og hlær. Hún ætlar að fagna sigrinum í kvöld. „Ég ætla að skemmta mér með vinkonum mínum í bústaðnum og fagna þessu.“
Írskir dagar fara fram í 16. skipti á Akranesi um helgina og veðurblíðan hefur leikið við gesti hátíðarinnar. „Stemningin hefur verið gríðarlega góð. Bærinn er troðfullur og veðrið hefur leikið við okkur,“ segir Hallgrímur Ólafsson, einn skipuleggjanda Írskra daga, í samtali við mbl.is.
„Það hefur allt farið vel fram. Í kvöld er brekkusöngur sem ´71 árgangurinn af Akranesi mun standa fyrir á knattspyrnuvellinum. Eftir það er lopapeysan sem er árlegt ball á hafnarsvæðinu.“ Eins og nafnið bendir til er ætlast til að fólk komi í lopapeysu á ballið. Hallgrímur segir að það sé of heitt til að vera í peysu í kvöld. „Við hvetjum fólk til að koma frekar í lopavesti eða lopamagabol!“