Sárnar viðbrögðin við vettlingunum

Vettlingarnir eru óvenjulegur minjagripur en engu verri fyrir vikið.
Vettlingarnir eru óvenjulegur minjagripur en engu verri fyrir vikið. Skjáskot af Twitter

„Ég átti ekki þennan hund, frænka mín átti hann og hann var mikið með mér svo þetta hefur rosalega mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig,“ segir ung kona sem birti mynd af sér í vettlingum ofnum úr feldi Chi­hua­hua hundsins Gosa í gærkvöldi. Gosi drapst fyrir tveimur árum síðan og var hann fjölskyldu sinni mikill harmdauði. 

Frétt mbl.is: Varð Gosi að vettlingum?

Gosi var undan Chihuahua tíkinni Ösku og hafði eigandi hennar samband við mbl.is fyrr í kvöld. Sagði eigandinn að móðir sín safnaði vettlingum og fyndist sérlega gaman að fá vettlinga úr sérstökum hráefnum. Því hafi fjölskyldan safnað saman hárum af Ösku og hvolpunum hennar þegar dýrin fóru úr hárum. Sama gerði eigandi Gosa, safnaði hári úr hundabursta og eins þeim sem fuku þegar Gosi fór í snyrtingu, og gaf svo móður eiganda Ösku.

„Þegar Gosi dó mjög sviplega prjónaði mamma vettlinga úr hári Gosa og gaf vinkonu minni. Þetta er sagan öll og alls enginn brandari en til gamans má geta að ég á vettlinga úr hári Ösku, prjónaða af mömmu minni,“ segir eigandi Ösku. 

Myndin hefur farið eins og eldur í sinu um netheima og hafa netverjar haft um hana misfögur ummæli og því vill unga konan sem setti myndina inn ekki láta nafns síns getið. Segir hún sér hafa sárnað mjög vegna ljótra athugasemda og eins vegna þess að myndin var tekin af Facebook síðu hennar í leyfisleysi.

„Ég er sár yfir því hvernig fólk er búið að bregðast við. Þetta átti ekkert að fara út í þetta og ég bjóst aldrei við því.“

Hún kveðst miður sín vegna þeirra fordóma sem fólks sýnir vegna svo persónulegs máls. Hún hafði ekki vitað af vettlingunum fyrr en í gær. Segir hún sárt að kveðja ástvin, jafnvel í formi gæludýrs, og því hafi það verið henni viss huggun að finna fyrir feldi Gosa á ný.

„Mér hlýnaði í hjartanu við þetta.“

Hún bætir við að vettlingarnir séu ekki til notkunar og séu geymdir á góðum stað. „Maður er ekkert að drullumalla í þeim,“ segir hún og hlær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert