„Þetta byrjaði í haust fyrir tilviljun. Ég var bara að vafra á netinu og rakst á myndbönd af einhverjum hópum sem voru að taka þátt í þessu og sendi á bróður minn. Hann hugsaði sig ekki tvisvar um og ákvað að við myndum taka þátt nú í sumar,“ segir Daníel Eldjárn Vilhjálmsson, sem ásamt þeim Tómasi Eldjárn Vilhjálmssyni, Tryggva Kaspersen og Helga Kristjánssyni tekur þátt í hinu ævintýralega Mongol Rally.
Um er að ræða akstursmót þar sem keppendur leggja af stað frá Bretlandi og eiga að komast af eigin rammleik til Mongólíu. Ekki er um að ræða eiginlega keppni þar sem engin verðlaun eru veitt, og keppendur eru hvattir til þess að virða hámarkshraða. Til að gera mótið enn sérstakara mega keppendur ekki vera á bíl með stærri en 1 lítra vél.
„Mótshaldararnir hafa veitt undanþágu þannig að við megum vera með 1,2 lítra vél,“ segir Daníel, en lið hans, Genghis Car, mun aka leiðina löngu á Suzuki Wagon.
„Bíllinn er með talsvert lítið flatarmál en er þrátt fyrir það rúmgóður og hár. Við verðum fjórir í bílnum og útvarpið í honum er bilað þannig að við munum þurfa að læra að syngja fyrir ferðina og taka söngbók með okkur,“ segir Daníel.
Liðin ákveða sjálf hvaða leið er farin til Mongólíu en Daníel segir þrjár leiðir vera vinsælastar.
„Það eru í raun þrír meginstraumar. Norðurleiðin liggur í gegnum Eystrasaltslöndin og svo í gegnum Rússland. Það er stysta leiðin. Miðjuleiðin er í gegnum Tyrkland og upp í gegnum Rússland eða með ferju frá Azerbaídsjan til Kasakstan. Þriðja leiðin fer svo í gegnum Íran og -stan-löndin, Túrkmenistan og fleiri. Það er lengsta leiðin og tekur alveg átta vikur.“
Upphaflega var ætlun strákanna að fara þá leið en sökum tímaskorts urðu þeir að velja styttri leið. „Það eru önnur lið sem fara þessa sömu leið og við,“ segir Daníel.
Ferð þeirra mun taka um þrjár vikur. Leggja þeir af stað frá Bretlandi, þar sem mótið er ræst á kappakstursbraut. Er ekinn einn hringur á brautinni áður en haldið er út í heim. „Við stefnum svo að því að vera komnir á áfangastað ekki mikið seinna en 13. ágúst. Þetta eru svona rúmlega þrjár vikur. Þá flýgur helmingurinn af liðinu heim en tveir okkar hafa viku til viðbótar, þannig að við vorum að velta fyrir okkur, ef bíllinn er í ágætu standi, að keyra bara heim aftur í gegnum Rússland,“ segir Daníel bjartsýnn og bætir við: „Það er frekar þægilegt því það er beinn vegur í gegnum Rússland. Við verðum samt að sjá til með það hvort bíllinn verði ökuhæfur. Hann er nú þegar keyrður 270 þúsund kílómetra þannig að það er spurning hvað hann þolir meira.“
Enginn í vinahópnum er bifvélavirki en þeir eru nú að undirbúa sig fyrir þær viðgerðir sem þeir gætu þurft að útfæra. „Ég er verkfræðingur og get kannski aðeins fiktað mig áfram. Ég er einmitt búinn að vera að skoða viðgerðarhandbók bílsins sem ég gróf upp á netinu. Þannig get ég kannski lagað þessa helstu hluti. Síðan er bróðir minn björgunarsveitarmaður svo að ég treysti því að hann sé með einhver ráð þegar kemur að því að gera við bíla. Síðan er hann með meirapróf. Hann ætti því að kunna mest á bíla af okkur sem erum að fara,“ segir Daníel.
Strákarnir hafa tjald meðferðis en munu einnig nýta sér gistiheimili þegar þörf er á því. Alla leið að Mongólíu verður þetta nokkuð þægilegt. „Í Evrópu munum við gista í tjöldum þar til við komum að Rússlandi. Þá munum við örugglega gista mest í gistiheimilum upp á öryggið. Í Mongólíu aftur á móti er maður kominn í svolítið annan heim og við förum aftur í tjaldið. Þar eru fáir túristar og litlir innviðir fyrir ferðamenn auk þess sem við verðum í hálfgerðri eyðimörk.
Þeir félagar eru þó aðeins með þriggja manna tjald þar sem plássleysið í bílnum litla býður ekki upp á mikið meira. „Við höfum því ákveðið að einn muni alltaf gista í bílnum, það er ágætt líka upp á öryggið að einn passi bílinn.“
Hafa þeir ákveðið að skipuleggja sig aðeins passlega mikið og frekar spila af fingrum fram þegar fram líða stundir. Stendur undirbúningur nú yfir, en þeir þurftu að útvega vegabréfsáritun til Rússlands. „Við þurfum vegabréfsáritun til Rússlands en annars förum við ansi þægilega leið og við þurfum ekki áritun til Mongólíu. Sum lið hafa þurf að sækja um sex til átta áritanir og það getur kostað ansi mikið að vera að senda vegabréf á milli sendiráða um alla Evrópu. Þar sem við erum allir námsmenn eða nýbúnir með skóla höfum við ákveðið að hafa þetta svolítið í okkar verðflokki,“ segir Daníel.
Í Mongol Rally þetta árið eru um 700 keppendur á um 300 bílum. Fyrsta árið sem mótið var haldið var árið 2004. Þá hófu sex bílar leik en aðeins fjórir luku. Hefur mótið vaxið ört á þessum ellefu árum. Spurður hvað heilli við þátttöku segir Daníel það vera ævintýramennskuna. „Þetta er ævintýratúrismi sem hefur verið að aukast að undanförnu. Fólk er farið að sækja í eitthvað meira en að liggja á sólarströnd á Spáni, það er ekki nóg fyrir okkur fjóra. Þess vegna langar okkur að prófa eitthvað meira extreme.“
Þátttakendur í Mongol Rally eiga að safna fé til styrktar góðgerðarmálum. Félagarnir hafa ákveðið að safna til styrktar Amnesty á Íslandi auk þess sem þeir safna einnig til styrktar félaginu Cool Earth sem vinnur að því að bjarga Ashaninka-regnskóginum.
Þegar Daníel er spurður hvort það verði ekki erfitt að eyða þremur vikum í þröngum bíl með þremur öðrum karlmönnum er hann með svar á reiðum höndum: „Við erum með einn sálfræðinema með okkur, hann ætti að geta útkljáð allar deilur á milli okkar.“
„Annars er þetta er líka bara tækifæri að kynnast hver öðrum betur þótt við höfum allir þekkst frekar lengi. Þetta verður bara gaman hjá okkur. Ef einhver er fúll sefur hann bara inni í bíl og hinir í tjaldinu,“ segir Daníel að lokum.
Sjá Facebook-síðu hópsins þar sem fylgjast má með undirbúningi þeirra og síðar ferðalagi. Hér má svo heita á drengina og renna peningarnir til góðgerðarmála.