Íslendingar eru líkari þjóðum eins og Kanadamönnum, Bretum, Áströlum, Nýsjálendingum og Bandaríkjamönnum en hinum norrænu þjóðunum samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem unnin var af fræðimönnum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Það er þjóðum sem jafnan hafa verið skilgreindar sem engilsaxneskar. Fjallað er um rannsóknina í nýjasta tölublaði veftímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla.
Rannsóknin var unnin af þeim Svölu Guðmundsdóttur lektor, Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni dósent og Þórhalli Guðlaugssyni dósent. Notast var við rannsóknaraðferð sem þróuð hefur verið af hollenska prófessornum Geert Hofstede en hann er brautryðjandi í samanburðarrannsóknum á þjóðmenningu iðnvæddra ríkja. Slíkar rannsóknir hafa verið gerðar í öðrum iðnvæddum ríkjum en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland er rannsakað.
Rannsóknaraðferðin byggir á því að þjóðmenningar eru mældar út frá fimm víddum; einstaklingshyggju, valdafjarlægð, karllægni samfélagsins, langtímahyggju og loks því sem nefnt er óvissu-hliðrun vídd. Slíkar rannsóknir hafa til þessa náð til 25 ríkja sem eiga aðild að Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Rannsóknin hér á landi byggði á svörum frá nemendum á félagsvísindasviði Háskóla Íslands í október 2013.
Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að þrennt tengi Ísland einkum við hin norrænu löndin. Landnámsmennirnir hafi aðallega komið frá Noregi, erfðafræðirannsóknir bendi til þess að Íslendingar séu skyldir norrænum þjóðum og þeim þjóðum sem byggja Bretlandseyjar. Þannig hafi flestir landnámsmennirnir verið norrænir en einnig stór hluti af breskum uppruna. Þá sé íslenska vestur-norrænt tungumál.
Engu að síður eigi Íslendingar frekar samleið með engilsaxnesku þjóðunum samkvæmt rannsókninni en Norðmönnum, Svíum og Dönum. Ekki síst þegar horft sé til einstaklingshyggjunnar. Þar skori Íslendingar hátt líkt og Bretar, Kanadamenn, Ástralir, Nýsjálendingar og Bandaríkjamenn. Finnar eigi að sama skapi ekki heima í hópi norrænu ríkjanna á þennan mælikvarða. Þess í stað eru þeir flokkaðir með Írum og Hollendingum.
Rannsóknin í heild (á ensku)