Listamaðurinn Snorri Ásmundsson auglýsti í dag eftir líkum á Facebook síðu sinni. Í færslunni kemur fram að hann þurfi lík fyrir myndbandsverk. „Ef þú ert að deyja væri ég til í að fá líkamlegar leifar þínar lánaðar eftir að þú deyrð. Líkinu verður skilað til útfararstjóra í „sama“ ástandi,“ skrifar Snorri.
Í samtali við mbl.is rifjar Snorri upp þegar hann auglýsti eftir líkum fyrst haustið 2008. „Þá varð eiginlega allt vitlaust. Þetta var í öllum útvarpsstöðvum og sjónvarpsstöðvum og jafnvel svolítið skrýtnar umfjallanir,“ segir Snorri. „Sumir höfðu samband við einhverja presta og spurðu þá álits. Þeir voru búnir að ákveða að ég ætlaði að gera eitthvað mjög ósiðlegt við líkin en það var bara alls ekki þannig. En svo kom hrunið og ég lét þetta verk á bið og er búinn að vera með það opið síðan.“
Eins og fram kom á sínum tíma buðu á annan tug manna sig fram við Snorra til þess að taka þátt í verkinu. Einn þeirra var íslenskur maður sem var dauðvona. „Það var maður sem var að deyja úr sjúkdómi sem hafði samband. En svo liðu nokkrir mánuðir og þá hafði hann samband aftur og sagði að honum væri batnað og hann þakkaði því þessu verki,“ segir Snorri.
Hann segir að fólk eigi til að misskilja þessa ósk hans eftir líkum. „Það er hægt að fara til Kína eða Mexíkó og kaupa lík en ég hef engan áhuga á því. Ég er ekki alveg þannig siðferðislega brenglaður,“ segir Snorri og hlær. „Ég vil gera þetta verk í samstarfi við hinn látna ekki síst vegna virðingar fyrir honum og fjölskyldu hans.“
Aðspurður hvort hann geti lýst því hvernig líkið yrði notað í verkinu segist Snorri ætla að dansa við það. „Þetta er dansverk, ég ætla að dansa við líkið,“ segir hann.
Eflaust kemur mörgum spánskt fyrir sjónir það að gefa lík og efast líklega sumir um hvort þetta sé löglegt. Snorri er búinn að ráða til sín lögfræðing sem hefur gert samning fyrir hann sem boðinn verður þeim sem býður sig fram. „Þannig að lagalega séð er ég alveg réttu megin. Ég hef ekki heyrt af því að þetta sé ólöglegt enda hef ég ekki heyrt til þess að þetta hafi verið gert áður.“
Aðspurður segist Snorri ekki vera að leita sérstaklega að Íslendingum til þess að taka þátt í verkinu. „Ég óska bara eftir manneskju sem er tilbúin í þetta verk.“