Áhugi almennings á Holuhrauni er ekki mikill, ef marka má ferðaþjónustuaðila í Mývatnssveit. Fyrir skemmstu var opnuð gönguleið við norðurbrún Holuhrauns skammt frá veginum um Dyngjusand en áhuginn á að ganga þessa leið er ekki mikill, hvorki hjá útlendingum né Íslendingum.
„Það er engin eftirspurn. Íslendingar spyrja smá, ég hef fengið fyrirspurnir frá gönguhópum en ekkert meira. Það er einn útlendingur búinn að spyrja,“ segir Gísli Rafn Jónsson hjá Mývatn Tours, sem hefur farið með ferðalanga upp í Öskju í fjölmörg ár.
Góð ásókn er í ferðir Gísla upp í Öskju, en skammt þar hjá er Holuhraun í allri sinni dýrð. Hins vegar er lítill vilji til að skoða það, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.