Það kom félagsmönnum Bandalags háskólamanna (BHM) á óvart að engin hreyfing skuli hafa komist á kjaraviðræður BHM og ríkisins eftir að ljóst varð að mikill meirihluti félagsmanna BHM hafði samþykkt að boða til verkfallsaðgerða. Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnadóttir, formaður BHM, við aðalmeðferð í máli BHM gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Þórunn sagði að hún hefði tekið við formennsku í BHM í aprílmánuði og sest fljótlega í samninganefnd bandalagsins. Þá hefði legið fyrir tilboð frá stjórnvöldum um allt að 3,5% launahækkun. Mikil kyrrstaða hefði verið í viðræðunum í mjög langan tíma.
„Það var næstum því fullkomleg kyrrstaða þangað til í byrjun maí þegar hreyfing kemst á viðræður á almenna vinnumarkaðinum,“ sagði Þórunn. Tilboðið frá stjórnvöldum hafi farið upp í 4% launahækkun og reyndar hafi verið talað um x prósentur í tilboði stjórnvalda í lok maímánaðar.
Þórunn nefndi að það hefði verið fyllilega ljóst þegar leið á verkfall félaga innan raða BHM að ekki ætti að semja við BHM sjálfstætt, ef svo má segja.
Fyrir hefði legið rammi frá almenna vinnumarkaðinun, en þar tókust samningar undir lok maímánaðar, og það hefði verið „algjörlega ljóst að samninganefnd ríkisins lítur svo á að hendur sínar séu bundnar við það“.
„Þetta var störukeppni. Ég upplifði það þannig,“ sagði Þórunn og bætti við: „Að einhverju leyti verð ég bara að segja eins og er að mér fannst þessi vinnubrögð viðsemjandans óskiljanleg.“
Aðspurð sagði Þórunn að félögin átján, innan raða BHM, hefðu ákveðið að fara í samflot, ef svo má að orði komast, í stað þess að hvert félag semdi sjálfstætt. „Það er nú venjan oft og tíðum í svona samningaviðræðum við ríkið. Viðsemjandi okkar leggur upp úr því að þurfa ekki að semja við átján aðila.“ Hins vegar væri mikilvægt að það kæmi fram að hvert og eitt félag ákvað að fara í samflot.
„Verkfallsrétturinn og samningarétturinn er hjá hverju félagi,“ sagði Þórunn.
Félögin hefðu lagt fram sameiginlega kröfugerð og áherslan hefði fyrst og fremst verið lögð á hana. „Öllum var ljóst og það lá fyrir að sérkröfur voru látnar bíða. Það var sáttasemjari sem túlkaði það þannig þegar deilunum átján hafði verið vísað þangað,“ sagði hún en kjaradeilurnar komu á borð ríkissáttasemjara í lok marsmánaðar.