500 milljónir til þjálfunar doktorsnema

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindasvið Háskóla Íslands.
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hefur ásamt samstarfsfólki sínu hlotið tæplega 500 milljóna króna styrk til þjálfunaráætlunar fyrir tólf doktorsnema. Áætlunin mun stuðla að þróun nýrrar hugsunar í hagfræði sem byggist á þekkingu á auðlindum jarðar. Þetta kemur fram á vef Háskóla Íslands.

Þjálfurnaráætlunin er á vegum Marie Curie verkáætlunar Evrópusambandins og munu nemendur öðlast sameiginlega doktorsgráðu frá tveimur háskólum. Verkefnið kallast aðlögun að nýjum efnahagslegum veruleika (AdaptEcon) og er skipt í þrjú þemu: sjálfbæra stjórnun auðlinda, samþætt efnahagslegt kerfismat og samþættingu samfélags og hagfræði.  

Samstarfháskólar Háskóla Íslands í verkefninu eru Háskólinn í Stokkhólmi og Blaise Pascal háskólinn í Clermont Ferrand í Frakklandi. Auk háskólanna taka New Economics Foundation í London, Schumacher-stofnunin í Bristol, Försvarshögskolan í Stokkhólmi, Wuppertal-stofnunin í Berlín og Gesellschaft für Wirtschaftliche Strukturforschung í Osnabrück þátt í verkefninu.

Samstarfsaðilar Kristínar Völu við Háskóla Íslands eru Harald Sverdrup, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði.  Verkefnið hefst 1. desember 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert