Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hefur ásamt samstarfsfólki sínu hlotið tæplega 500 milljóna króna styrk til þjálfunaráætlunar fyrir tólf doktorsnema. Áætlunin mun stuðla að þróun nýrrar hugsunar í hagfræði sem byggist á þekkingu á auðlindum jarðar. Þetta kemur fram á vef Háskóla Íslands.
Þjálfurnaráætlunin er á vegum Marie Curie verkáætlunar Evrópusambandins og munu nemendur öðlast sameiginlega doktorsgráðu frá tveimur háskólum. Verkefnið kallast aðlögun að nýjum efnahagslegum veruleika (AdaptEcon) og er skipt í þrjú þemu: sjálfbæra stjórnun auðlinda, samþætt efnahagslegt kerfismat og samþættingu samfélags og hagfræði.
Samstarfháskólar Háskóla Íslands í verkefninu eru Háskólinn í Stokkhólmi og Blaise Pascal háskólinn í Clermont Ferrand í Frakklandi. Auk háskólanna taka New Economics Foundation í London, Schumacher-stofnunin í Bristol, Försvarshögskolan í Stokkhólmi, Wuppertal-stofnunin í Berlín og Gesellschaft für Wirtschaftliche Strukturforschung í Osnabrück þátt í verkefninu.
Samstarfsaðilar Kristínar Völu við Háskóla Íslands eru Harald Sverdrup, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði. Verkefnið hefst 1. desember 2015.