Nafn mannsins sem fórst

mbl.is

Maður fórst í sjóslysi skammt utan Aðalvíkur í gærmorgun. Fiskiskipið sem fórst heitir Jón Hákon og voru fjórir skipverjar um borð en þremur var bjargað af kili skipsins. Hinn látni hét Magnús Kristján Björnsson og var búsettur á Bíldudal. Hann var 61 árs gamall.

Í sameiginlegri tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum og Landhelgisgæslunni segir að stjórnstöð gæslunnar hafi borist viðvörun um að skipið væri ekki að senda sjálfvirk ferilvöktunarskilaboð. Eftir að tilraunir til þess að ná sambandi við skipverja báru ekki árangur var haft samband við nærliggjandi skip og þau beðin um að svipast um eftir Jóni Hákoni.

„Landhelgisgæslan hefur samband við okkur og biður okkur að kanna hvort við sjáum tiltekinn bát sem hvarf af ratsjá,“ segir Jóhann Sigfússon, skipverji á Mardísi ÍS 400 sem var fyrst á slysstað. Þegar að var komið sáu skipverjar Mardísar mennina á kili skipsins. „Þetta var ólýsanlegt, maður var alveg í öngum sínum að sjá þá þarna og komast ekki hraðar,“ segir hann, en Mardís var upp undir tíu mínútur á leiðinni til mannanna.

„Við náðum þeim um borð og fórum síðan og leituðum að líkinu og fundum það fljótt og settum það um borð. Síðan kom hraðskreiðari bátur og við færðum þá yfir,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is. Rétt fyrir klukkan 10 kom Sædís ÍS 67 til hafnar með skipverjana þrjá.

Maður var alveg í öngum sínum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert