Ríflega hálftími leið frá því stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk viðvörun um að fiskibáturinn Jón Hákon frá Bíldudal sendi ekki boð í sjálfvirka tilkynningaskyldu þar til áhöfn Mardísar tilkynnti að hún væri komin að bátnum og þremur hefði verið bjargað.
Að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar, kveður reglugerð á um að vaktstöð siglinga eigi að gefa sér hálftíma til þess að reyna að ná í áhöfn skips ef það hættir að senda ferilvöktunarboð í sjálfvirka tilkynningaskyldu. Mjög oft detta bátar og skip út tímabundið og ef farið væri að senda þyrlu og björgunarsveitir strax af stað þá gerðu björgunarsveitir og áhöfn þyrlunnar fátt annað.
Strax var byrjað að reyna að ná í áhöfn Jóns Hákons en síðasta staðsetning skipsins var skammt vestur af Aðalvík.
Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar / vaktstöð siglinga reyndu að ná sambandi við bátinn í gegnum talstöðvarfjarskipti og síma auk þess að reyna að endursetja merkjasendingar frá honum í gegnum sjálfvirku tilkynningaskylduna. Haft var samband við nærliggjandi skip og báta og þeir beðnir að svipast um eftir Jóni Hákoni. Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Ísafjarðardjúp voru kallaðar út.
Líkt og fram kom í gær á mbl.is tilkynnti Mardís ÍS-400 rétt fyrir klukkan 8.30 að hún væri komin að Jóni Hákoni og að þremur skipverjum hefði verið bjargað af kili bátsins. Fjórði skipverjinn náðist um borð skömmu síðar og var hann án sýnilegra lífsmarka.
„Önnur skip og bátar komu fljótlega á vettvang en Mardís hélt áleiðis til Bolungarvíkur með skipbrotsmennina. Skipbrotsmennirnir voru færðir um borð í Sædísi ÍS-067 sem hélt með þá áleiðis til Bolungarvíkur og áætlaði komu þangað um tíuleytið. Fagranesið ÍS-008 kom að Jóni Hákoni upp úr kl. 08.30 og áætlaði að bíða við skipið þar sem það lá á hvolfi þar til björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar kæmu á staðinn. Skömmu fyrir kl. 09.00 tilkynnti Fagranesið að Jón Hákon væri sokkinn. Samkvæmt skipum og bátum á svæðinu var hægur norðlægur vindur og lítil ölduhæð,“ segir í sameiginlegri tilkynningu sem Landhelgisgæslan og lögreglan á Vestfjörðum sendu frá sér í gær.
Ekkert bendir til annars en að um hörmulegt slys hafi verið að ræða en skipverjarnir þrír hafa gefið lögreglu skýrslu varðandi aðdraganda slyssins. Tildrög slyssins eru enn til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum og hefur rannsóknarnefnd sjóslysa hefur verið tilkynnt um atvikið.
Ásgrímur segir Landhelgisgæsluna hvetja alla til þess að vera með kveikt á neyðarrásinni líkt og meirihluti sjómanna geri. Ekkert bendir til annars en að svo hafi verið í gær. Hann segir þetta mikið öryggisatriði svo hægt sé að hafa samband við báta og skip ef eitthvað bjátar á.