Svona á að elda „eldsterkt hjarta“

Össur Skarphéðinsson alþingismaður.
Össur Skarphéðinsson alþingismaður. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Stjórnmálamönnum getur verið ýmislegt til lista lagt eins og öðrum. Til að mynda á matreiðslusviðinu. Þetta sýndi Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og sannaði á dögunum þegar hann var einn heima á kvöldverðartíma og þá voru góð ráð dýr. Eiginkonan og dætur voru að heiman og því varð úr að hann eldaði sér hjarta sem fannst í frysti heimilisins. Lýsti Össur í kjölfarið aðferðafræðinni við matreiðsluna á Facebook-síðu sinni fyrir aðra sem lentu í sömu aðstæðum. Færslan fer hér að eftir í fullri lengd:

„Home alone. – Dr. Árný úti á lífinu (já, á mánudagskvöldi!). Yngri dóttirin í bænum (ómægod!). Sú eldri að verða fullorðin í útlöndum (tísus). Yfirþyrmandi einsemdin lagði kalda hönd um alla Vesturgötu seinnipartinn. Allt í stíl og ég tók út gaddfreðið hjarta. Það fleytir manni hvergi í efsta sæti á þessu heimili - nema hjá köttunum – og eins gott að elda það í einrúmi. Upp úr fréttum skar ég það langsum í þrjá parta. Þverskar svo í hóflega bita. Áður skar ég meginæðar frá, en alls ekki fituna. Velti svo upp úr hveiti og mikið af cayenne pipar. Ríflega kúfuð matskeið af hveiti á móti ríflega hálfri teskeið af pipar. Eitthvað svoleiðis. Salt og pipar eftir ljóðrænu innsæi. Sneiddi tvö góð hvítlauksrif, lítinn lauk, og loks fjórar döðlur mjög smátt.

Hjartateningana steikti ég við miðlungshita í svona 5 mínútur, bætti við laukum og steikti í aðrar fimm, setti döðlurnar útí og steikti í 2-3 mínútur til viðbótar. Tíminn er þó afstæð stærð í svona gerningi og brúkast þangað til blær af brasi sést á viðfangsefninu. Pínkupons af mjólk - rjómi er náttúrlega tabú á Vestó - dass af Worcestershiresósu, ördass af tabasco sósu, teskeiðarbotn af sinnepi. – Undir þessu horfði ég á viðtal við Bjarna Ben sem sagðist vera „mátulega langt til hægri.“ Við það missti ég einbeitnina en steikti þó af ást og kærleika. Úr þessu varð eldsterkt hjarta sem þandi bragðlaukana eins og gæðing á skeiðvelli, togaði í tungu, reif í góm og var dásamlega mjúkt undir tönn. Þetta er hinn fullkomni réttur fyrir umkomulausa grasekkla og piparsveina. Nú er ég saddur, nánast sæll, og einsemdin horfin. .– Hvar mínar fortöpuðu konur halda sig hef ég hins vegar ekki hugmynd um. O tempora...“

Mbl.is sló á þráðinn til Össurar og spurði hann út í eldamennskuna. Sagði hann vera hrifinn af sterkum mat og að hjörtu væru í uppáhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert