Gjaldtaka vegna notkunar á debet- og kreditkortum erlendis er nánast alveg eins hjá öllum viðskiptabönkunum. Í apríl á þessu ári gerðu þessir sömu bankar og kreditkortafyrirtækin sátt við Samkeppniseftirlitið um kortamarkaðinn, en þar kemur meðal annars fram að ekki megi samræma viðskiptakjör korthafa með öðrum útgefendum greiðslukorta. Frá þeim tíma hefur enginn bankanna gert breytingu á verðskrá sinni og eru því öll verð alveg eins og áður en sáttin var undirrituð.
Margir Íslendingar nýta sumarið til þess að ferðast erlendis og einn af gjaldaliðum á slíkum ferðalögum getur verið bankakostnaður. Mbl.is skoðaði hver kostnaður við notkun kredit- og debetkorta væri erlendis og var niðurstaðan sú að þessir gjaldaliðir eru mjög svipaðir hjá öllum fyrirtækjunum.
Úttekt í hraðbanka með kreditkorti var í flestum tilfellum 2,75% af úttektarupphæðinni og lágmarksgjaldtaka í hvert skipti 690 krónur. Eina undantekningin voru American Express kort hjá Íslandsbanka, en þar var kostnaðurinn 3%. Það þýðir í raun að viðskiptavinir þurfa að taka út fyrir 25.090 krónur í hvert skipti vilji þeir ekki greiða hærra en 2,75%. Ef viðskiptavinur tekur t.d. út 10.000 krónur í hraðbanka erlendis með kortinu, þá er kostnaðurinn áfram 690 krónur, en gjaldprósentan 6,9%. Notkun kreditkorta í verslunum með eða á netinu er aftur á móti án aukakostnaðar
Þegar kemur að úttekt með debetkortum í hraðbönkum erlendis er gjald hjá stóru viðskiptabönkunum þremur 2%, en hjá MP banka 2,75%. Það skal þó tekið fram að MP banki var ekki með í sátt hinna bankanna og kortafyrirtækjanna frá því í apríl. Þegar greiða á með debetkorti í verslun er gjaldið hins vegar 1% hjá öllum bönkunum fjórum.
Eins og sjá má á meðfylgjandi tölfu er gjaldskrá stóru viðskiptabankanna þriggja nákvæmlega eins í þessum efnum, ef frá er talið að kostnaður við úttekt í hraðbanka með American Express kortum, eða 2,75%
Það sem vekur athygli við þetta er að í samkomulaginu frá því 30. apríl á þessu ári samþykkja bankarnir að eiga ekki „aðild að beinni eða óbeinni samræmingu skilmála og viðskiptakjara korthafa, hverju nafni sem kunna að nefnast, með öðrum útgefendum greiðslukorta.“