Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun eiga fundi með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs sambandsins, í Brussel í vikunni.
Fyrri fundur forsætisráðherra er í dag en þá hittir hann Juncker. Hann mun síðan funda með Tusk á föstudaginn. Þetta eru fyrstu fundir Sigmundar Davíðs með leiðtogum Evrópusambandsins eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti Evrópusambandinu, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, um miðjan marsmánuð á þessu ári að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki. Fór hann fram á að landið yrði tekið af lista sambandsins yfir slík ríki.
Í maí síðastliðnum fjarlægði Evrópusambandið síðan Ísland af lista sínum yfir umsóknarríki, samkvæmt vefsíðu sambandsins.
Samkvæmt heimildum mbl.is verður rætt um samband Íslands og Evrópusambandsins í ljósi þessarar breyttu stöðu á fundunum.
Einnig verða samskipti Íslands og sambandsins rædd, meðal annars framkvæmd EES-samningsins og möguleikar á auknu samstarfi á öðrum sviðum.
Einnig verða efnahagsmál og norðurslóðir til umræðu, sem og staða mála í Evrópu sem er mjög í deiglunni nú um stundir, sér í lagi í Grikklandi. Þá mun forsætisráðherra kynna sér starfsemi Eftirlitsstofnunar EFTA.
Sigmundur Davíð átti síðast opinbera fundi í Brussel árið 2013, samkvæmt upplýsingum mbl.is.