Fylgiskrísan stærri en bara formaðurinn

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Samfylkingin mælist með 9,3% fylgi í nýjustu skoðanakönnun MMR og er það minnsta fylgi flokksins í sögunni. Fylgi Bjartrar framtíðar heldur einnig áfram að skreppa saman á meðan að Píratar standa sterkir í 33,2%. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,8% fylgi og Framsóknarflokkurinn bætir 0,6% við sig og fengju 10,6% atkvæða ef kosið yrði í dag.Vinstri grænir bæta við sig milli kannanna og mælast nú með 12% fylgi.

Stjórnmálafræðingurinn Stefanía Óskarsdóttir segir arfleifð síðustu ríkisstjórnar, lítil endurnýjun og skortur á málefnalegri sérstöðu vefjast fyrir Samfylkingunni. „Evrópusambandsmálið var lykilmál hjá þeim og nú er það dottið um sjálft sig og þá þurfa þau að finna nýja fjöl,“ segir hún og bætir við að það sama megi í raun segja um Bjarta framtíð sem sé illaðgreinanleg frá Samfylkingunni í áherslum.

„Aldursdreifingin í þingflokki Samfylkingarinnar er tiltölulega lítill, meðalaldurinn er hár og það hefur sýnt sig að hjá ungu fólki eru Píratar að skora mikið. Það má gera ráð fyrir því að þegar nær líður kosningum og uppstilling og prófkjör fer í gang muni þau leitast við að endurnýja í sínum röðum og þá ekki bara formanninn. Svona fylgiskrísa er ekki bara merki um að það sé eitthvað mikið að formanninum heldur er málið stærra.“

Segir hún að útskiptingar á formanni geti hjálpað þegar svona er komið en að eins þurfi flokkurinn að endurnýja í sínum röðum og finna mál sem auka sérstöðu flokksins gagnvart Bjartri framtíð og Vinstri grænum.

„Ég tók eftir því í eldhúsdagsumræðunum að þingmenn eins og Helgi Hjörvar voru að fikra sig aðeins inn á slóðir píratanna í sínum málflutningi. Það kæmi mér ekki á óvart Ef Samfylkingin færi að taka upp eitthvað af málflutningi Píratanna.“

Þurfa kynningarátak

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, skýrir minnkandi fylgi flokksins með skorti á kynningarstarfi fremur en að það sé áfellisdómur ástörf þingflokksins. Fylgi flokksins  mælist nú 5,6%, borið saman við 6,8% í síðustu könnun en fyrir um ári síðan, í lok júní 2014, mældist flokkurinn með 21,8% fylgi.„Ég held að við eigum meira inni en þetta miðað við okkar áherslur og við þurfum bara að kynna þær betur,“ segir Guðmundur.Segir hann flokkinn eiga mikinn efnivið til að greina frá og að til standi að kynna dýpri stefnu í nokkrum málaflokkum.

„Mér finnst þingflokkurinn hafa starfað mjög vel og mér finnst við hafa starfað mjög vel í sveitarstjórnum. Við erum líka nýr flokkur og sveiflurnar hjá okkur hafa verið mjög miklar. Við þurfum að festa okkur betur í sessi og ég held að við þurfum að fara í sambærilegt kynningarátak og þegar við stofnuðum flokkinn,“ segir hann.

Stefanía segir Bjarta framtíð hafi verið stemningsframboð sem talaði fyrir bættum samskiptum og umræðuhefð en að nú dragi Píratar til sín meiri athygli. Segir hún Pírata virðast sækja mikið fylgi til Bjartrar framtíðar en báðir flokkarnir komu nýir inn á þing í síðustu kosningum þó þeir standi á sitthvorum endanum í dag

„Mér finnst Píratar hafa verið fínir á þingi og alveg eiga skilið fylgisaukningu en eins og þeir segja sjálfir þá eru þeir skeptískir á að fylgið verði svona mikið,“ segir Guðmundur. „En mér finnst þetta líka vera vitnisburður um hve stjórnmálaumhverfið er dýnamískt og tilbúið að hugsa hlutina upp á nýtt og það finnst mér jákvætt.“

Flokkurinn kemst á flug

Nokkur styr hefur staðið um formannsembætti Samfylkingarinnar á síðustu mánuðum en aðeins munaði einu atkvæði á sitjandi formanni, Árna Páli Árnasyni og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í formannskjöri flokksins í mars. Í tilefni af nýjustu tölum um fylgi flokksins ritaði Björg­vin G. Sig­urðsson, fyrr­ver­andi þingmaður og ráðherra Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, pistil þar sem hann spyr hvort komið sé að síðustu dögum Samfylkingarinnar og hvort Árni Páll geti náð flokknum á flug.

„Svarið við báðum spurningunum er að mínu mati afgerandi: Flokkurinn tekur flugið á ný, enda frjálslynd jafnaðarstefna klassísk pólitík sem hefur aldrei átt meira erindi en nú og jú Árni getur það. Til þess þarf hann auðvitað stuðning innan flokks og utan, og finna að hann hefur þann stuðning.“

Segir hann að vel megi vera að sameina þurfi sundraðan vinstri kantinn en að Samfylkingin geti átt öll bestu árin eftir standi jafnaðarfólk saman og berjist fyrir tilveru flokksins.

„Ekkert er sjálfgefið og gæfuhjólið snýst ekki við nema að við leggjumst öll á eitt.“

Ekki náðist í formann eða varaformann Samfylkingarinnar við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir vanda Samfylkingarinnar snúast um meira en …
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir vanda Samfylkingarinnar snúast um meira en bara formannsembættið. mbl.is/ Styrmir Kári
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn
Björgvin G. Sigurðsson segir að dagar Samfylkingarinnar þurfi ekki að …
Björgvin G. Sigurðsson segir að dagar Samfylkingarinnar þurfi ekki að vera taldir. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert