„Auðvitað hefðu þau getað farið með hundinn í leyfisleysi, eins og margir gera en ekki mæli ég með því,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, um mál fjölskyldu sem vildi taka fjölskylduhundinn með í kirkjugarð að kveðja fjölskylduföðurinn, 10 ára dóttur hins látna til stuðnings.
Í samtali við mbl.is í gær sagði móðir hins látna, Sirrý Birgisdóttir, það óskiljanlegt að meðlimi fjölskyldunnar sé haldið frá með þessum hætti en Þórsteinn segir að taka beri hagsmuni heildarinnar framyfir hagsmuni hundaeigenda.
„Segjum að jarðsetning sé austur í Gufuneskirkjugarði, það eru oft tvær til þrjár jarðsetningar í gangi á sama tíma og oft eru grafirnar ekki langt frá hver annarri. Þá gæti sú staða komið upp að hundar gætu farið að gelta, jafnvel þó að eigendurnir séu með aga á þeim þá ráða þeir ekki við þá og þetta þekkja allir.“
Þórsteinn segir að að gelt hunda gætu truflað aðra sem væru við jarðsetningu og það væri ekki til að auka á þá virðingu sem fólk vill hafa við slíkar athafnir.
Á síðustu árum hefur færst í aukana að gæludýr hinna látnu taki þátt í hinstu kveðju og hafa hundaeigendur á samfélagsmiðlum margir bent á að hesturinn Glófaxi hafi tekið þátt í útför knapans Einars Öder Magnússonar í febrúar. Þórsteinn segir hestinn hafa verið í kirkjunni en að hann hafi ekki fylgt með í garðinn.
„Öll umferð með hunda eða önnur dýr er strangt tiltekið bönnuð en þetta er ekki alltaf virt því þrátt fyrir að þeir sjái skiltin fara þeir um garðana. Ef við færum okkur til Danmerkur þar sem þetta er einnig bannað þá er þetta ekkert vandamál. Þú sérð aldrei nokkra manneskju með hund í kirkjugarði því þar fara menn eftir reglum.“
Þórsteinn segir að á tónleikum eða í leikhúsum þýði ekki að reyna að fá undanþágu til að hafa hund meðferðis Segir hann útfarir vera þess eðlis að þar vilji fólk vera í næði og hafa helgibrag yfir.
„Það hafa ekki verið nein efnisrök fyrir því að leyfa fólki að fara með hunda inn í garða til að vera við jarðsetningar. Það hefur hreinlega aldrei komið til tals. Auðvitað vitum við að einn og einn aðili er bundinn sérstaklega miklu ástfóstri við dýrið en þetta fólk verður að skilja að þessar kvaðir eru settar til heilla fyrir fjöldann. Það er ekki hægt að gera neinar undanþágur því þá brestur allt.“
Þórsteinn segir mikið um að hundaeigendur gangi með dýrin í gegnum garðanna og að sér berist reglulega ábendingar þess efnis. Segir hann slíkt yfirleitt ekki tengjast jarðsetningu en að margir sem eigi leið um garðanna til að vitja leiða ástvina sinna kvarti yfir því að mæta hundum sem jafnvel eru lausir og róta í beðum.
„Ég fékk meira að segja póst í morgun frá konu sem kvartaði yfir því að hún hafi ekki getað gengið í gegnum Gufuneskirkjugarð, hún hafi mætt tveimur hundaeigendum með hunda. Hún var alveg hissa á því að við værum ekki að framfylgja þessum reglum,“ segir Þórsteinn. „Það eru miklu fleiri sem vilja halda þessu eins og þetta hefur verið heldur en þeir sem vilja breyta því, en kannski hafa þeir síðarnefndu mikið hærra.“
Frétt mbl.is: Hundum haldið frá hinstu kveðju