Nú er hægt að ræða framhaldið á nýjum forsendum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson and Jean-Claude Juncker.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson and Jean-Claude Juncker. Photo: European Commission

„Þetta var mjög góður fundur, óvenju afslappaður og skemmtilegur,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is en hann fundaði með Jean-Clau­de Juncker, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, í Brus­sel í dag.

„Kannski tengist það því að Juncker er afslöppuð týpa en hann er einnig búinn að vera að fást við mjög erfið mál innan Evrópusambandsins í dag og undanfarna daga þannig að ég get ímyndað mér að það hafi verið ágætis tilbreyting að hitta hóp frá Íslandi og geta rætt um uppbyggileg jákvæð mál.“

Juncker tjáði sig ekki um niðurstöðuna

Að sögn Sigmundar ræddu hann og Juncker hvernig þær sæju fyrir sér samband Íslands og Evrópusambandsins þegar það væri orðið ljóst að Ísland væri ekki á leið inn í ESB.

„Við fórum aðeins yfir það með vísan til síðasta fundar sem ég átti með forvera hans, Barroso, en þá fór Barroso fram á að áður en við ræddum framtíðina þyrftum við fyrst að útstilla hvernig við sæjum fyrir okkur umsóknina. Hvort hún ætti að halda áfram eða ekki. Þar sem nú er orðið ljóst að Ísland er ekki lengur umsóknarríki getum við farið að ræða framhaldið,“ segir Sigmundur.

Spurður hvort Juncker hafi eitthvað tjáð sig um þá ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að draga umsóknina til baka svarar Sigmundur því neitandi. „Hann sagði ekkert til um það hvort hann væri ánægður með niðurstöðuna. En hann var ánægður með að það væri komin niðurstaða í málið þannig að við gætum farið að huga að framtíðinni á nýjum forsendum.“

Íslendingar geta miðlað þekkingu á jarðhita

Sigmundur og Juncker ræddu m.a. um mikilvægi EES-samstarfsins og mikilvægi þess að það virkaði vel. „Síðan ræddum við töluvert um norðurslóðamál, en Evrópusambandið sækist eftir því að fá áheyrnarálit í Norðurskautsráðinu og við höfum stutt það í því,“ segir Sigmundur og bætir við að einnig hafi verið rætt um sjávarútvegsmál og jarðhita.

„Það eru mörg lönd í Evrópusambandinu sem geta nýtt jarðhita miklu meira en þau gera núna og það er áhugi fyrir því að Íslandi komi að því.“

Í fyrra­málið mun for­sæt­is­ráðherra eiga fund með Don­ald Tusk, for­seta leiðtogaráðs Evr­ópu­sam­bands­ins. Sigmundur gerir ráð fyrir því að umræðuefni þess fundar verði mjög svipuð og í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert