Ágreiningur milli tveggja manna í Vogahverfi kom til kasta lögreglunnar í gærkvöldi en um var að ræða einn þeirra vafasömu manna sem lögreglan hefur varað við. Talið er að húseigandinn í Vogahverfi hafi veist að manninum, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglunni barst tilkynnt um ágreining í Vogahverfi á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þar var útlendingur sem hafði fengið greitt fyrir ákveðið verk og ætlaði að fara vinna verkið. Verkkaupi var hins vegar ekki sáttur við vinnubrögðin og talið að hann hafi veist að manninum.
„Búið að vara fólk við þessum erlendu mönnum í fjölmiðlum þar sem þeir eru að bjóða fólki þjónustu við lóðir og hús,“ segir í dagbók lögreglu og því þykir ástæða til þess að birta aftur tilkynningu lögreglunnar frá því fyrr í vikunni.
„Tilkynnt um vafasama menn
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarna daga borist tilkynningar um nokkra menn sem bjóða húseigendum ýmsa þjónustu, en mennirnir þykja mjög aðgangsharðir og eru sagðir bæði einstaklega ýtnir og frekir. Hafa tilkynnendur lýst óþægindum vegna samskipta við mennina. Einn þeirra sem keypti þjónustu mannanna, sem eru sagðir írskir eða skoskir, sakar þá um vanefndir og hyggst leggja fram kæru. Á meðal verka sem mennirnir bjóðast til að taka að sér er garðvinna, hellulögn og málningarvinna. Húseigendur eru beðnir að hafa þetta í huga ef menn banka upp á og bjóða þjónustu af þessu tagi. Og enn fremur að tilkynna til lögreglu ef slík mál koma upp,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.