„Er mögulegt að vera hluti af innri markaði Evrópusambandsins en ekki pólitískum samruna þess? Svo sannarlega. Sú er nákvæmlega staða landa okkar í dag. Og vitiði hvað? Það hefur gengið nokkuð vel.“
Þannig hefst grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og svissneska þingmannsins Thomas Aeschi í breska dagblaðinu Daily Telegraph í dag. Þar hvetja þingmennirnir Breta til þess að ganga í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA), sem bæði Ísland og Sviss eiga aðild að ásamt Noregi og Liechtenstein, kjósi þeir að segja skilið við Evrópusambandið. Benda þeir á að Bretar hafi eitt sinn leiðandi þjóð innan EFTA og geti orðið það á nýjan leik.
„Við erum stjórnarþingmenn frá Evrópuríkjum sem hafa ekki gengið í Evrópusambandið en eru þess í stað í EFTA. Mörg ár eru síðan skoðanakannanir hafa sýnt meirihluta fyrir inngöngu í sambandið í löndum EFTA. Ísland hefur formlega dregið umsókn sína til baka og hreyfing stuðningsmanna inngöngu í Evrópusambandið í Sviss hefur viðurkennt ósigur sinn og hætt störfum. Hvað Noreg varðar sýndi síðasta skoðanakönnun 17,8% hlynnt inngöngu og 70,5% á móti.“
„Komið ofan í, vatnið er indælt“
Veran í EFTA geri aðildarríkjum samtakanna kleift að taka þátt í innri markaði Evrópusambandsins og halda sjálfstæði sínu á sama tíma. EFTA-ríkin standi til að mynda utan sameiginlegra stefna sambandsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, sameiginlegrar utanríkis- og öryggisstefnu þess, sameiginlegs ríkisborgararéttar og fleiri málaflokka sem tengist ekki milliríkjaviðskiptum með neinum hætti. Þá greiði EFTA-ríkin þriðjung þess til Evrópusambandsins sem Bretar geri.
Miklu skipti að EFTA-ríkin standi utan sameiginlegra tollastefnu Evrópusambandsins. Ríkin geti þar með ekki aðeins átt í fríverslun við sambandið heldur einnig samið um fríversln við ríki utan þess. Það sé nokkuð sem Bretland geti ekki sem hluti af Evrópusambandinu. Bæði Sviss og Ísland hafi gert fríverslunarsamning við Kína á síðasta ári. Bretar hafi ekki heimild til þess.
„Fríverslun og sjálfstæð þjóðríki hefur reynst mjög góð samblanda. Tekjur miðað við íbúafjölda eru að meðaltali 56% hærri í EFTA-ríkjunum en innan Evrópusambandsins. Bæði heimalönd okkar flytja meira út til sambandsins en Bretland. Bretland var eitt sinn leiðandi ríki innan EFTA. Komið ofan í, vatnið er indælt.“
„Þetta er ekki lengur eftirsóknarverður kostur“
Guðlaugur Þór og Aeschi fluttu erindi á fundi í London, höfuðborg Bretlands, í morgun á vegum Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna (AECR) en Guðlaugur er varaformaður samtakanna. Haft er meðal annars eftir honum á Twitter-síðu AECR að hann teldi að Evrópusambandið gæti ekki sannfært Breta um að ganga í þar inn í dag væri Bretland utan þess. „Þetta er ekki lengur eftirsóknarverður kostur.“ Þá ræddi hann ennfremur við breska ríkisútvarpið BBC um kosti þess að vera í EFTA umfram veru í sambandinu.