Hefði reynst Íslandi dýrt

Væri Ísland eitt aðildarríkja ESB, hefði það þegar kostað landið …
Væri Ísland eitt aðildarríkja ESB, hefði það þegar kostað landið tugi milljarða í neyðarlán til Grikklands. mbl.is/afp

Ísland væri að öllum líkindum búið að greiða nokkra tugi milljarða í neyðarlán til Grikklands, hefði landið verið eitt aðildarríkja ESB.

Samkvæmt útreikningum sem Morgunblaðið hefur undir höndum er áætlað að neyðarlánin sem evruríkin og ESB-löndin hafa þegar greitt til Grikklands hefðu þýtt að Ísland hefði þurft að greiða ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu sinni, 0,127%, í björgunarpakkana tvo sem Grikkland hefur þegar fengið. Það þýddi að Ísland væri búið að greiða um 36 milljarða til Grikklands.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að sömu útreikningar bendi til þess að ef lánardrottnar Grikklands ákveði þriðja neyðarlánið til Grikkja, sem mun ráðast á sunnudag, hefði hlutdeild Íslands orðið um 17 milljarðar króna.

Blaðamaður fékk töluglöggan mann til þess að aðstoða sig við ákveðna útreikninga og eru helstu niðurstöður þessar. Tekið skal fram að hér er um áætlanir og enga hávísindalega úttekt að ræða og niðurstöðurnar sagðar geta hafa verið mögulegt framlag Íslands í björgunaraðgerðum til handa Grikkjum.

Gengið er út frá því að aðildarríki Evrópusambandsins og evruríkin borgi og hafi borgað í hlutfalli við landsframleiðslu sína (VLF). Þannig hefði Ísland átt að borga 0,127% af VLF Íslands í þeim neyðarlánum sem þegar hafa verið greidd til Grikklands. Það jafngilti því að Ísland hefði sem Evrópusambandsríki átt að greiða tæplega 270 milljónir evra, eða sem nemur 36 milljörðum króna, miðað við gengi dagsins í gær.

Hagspekingar hafa giskað á, að ef enn einn björgunarpakkinn verður ákveðinn af helstu lánardrottnum Grikklands nú á sunnudag, þá sé ekki ólíklegt að hann hljóði upp á ca 100 milljarða evra, eða um 13.400 milljarða íslenskra króna. Af þeirri upphæð hefði mögulega komið í Íslands hlut, væri það í Evrópusambandinu, að greiða 12,7 milljónir evra, eða sem svarar um 17 milljörðum króna, að því er segir í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert